Viðskipti innlent

Hagnaður OR 7,9 milljarðar fyrstu níu mánuði ársins

Atli Ísleifsson skrifar
Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir að rekstur Orkuveitunnar sé í góðu horfi.
Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir að rekstur Orkuveitunnar sé í góðu horfi. Vísir/GVA
Hagnaður Orkuveitusamstæðunnar á fyrstu níu mánuðum ársins 2014 nam 7,9 milljörðum króna og og rekstrarhagnaður (EBIT) var 11,3 milljarðar króna. Í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur segir að eiginfjárhlutfall fyrirtækisins hafi hækkað stöðugt með niðurgreiðslu skulda undanfarin ár, sé nú 31,1% og hafi meira en tvöfaldast frá hruni.

Árshlutareikningur samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur fyrir fyrstu níu mánuði ársins var staðfestur af stjórn og forstjóra í dag.

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir að rekstur Orkuveitunnar sé í góðu horfi og nú sé mikilvægum áfanga náð í að styrkja efnahaginn. „Með því hefur fyrirtækið aðgang að fjármálamörkuðum sem er mikilvægt því enn vinnum við að því að styrkja lausafjárstöðuna. Þannig er fyrirtækið betur búið undir ófyrirséðar breytingar í rekstarumhverfinu. Bættur rekstur, bættur efnahagur og bættar áhættuvarnir eru nauðsynlegar til að Orkuveitan geti sinnt sínum grundvallarverkefnum; að fólk eigi greiðan aðgang að rafmagni, heitu vatni og köldu og traustri fráveitu á sanngjörnu verði.“

Í tilkynningunni segir að grunninn að bættum efnahag Orkuveitunnar megi rekja til Plansins, aðgerðaáætlunar sem innleidd var vorið 2011. „Árangur af öllum þáttum þessarar meira en 50 milljarða áætlunar er umfram markmið. Þannig hefur rekstrarkostnaður lækkað að raungildi frá árinu 2010. Tekjur hafa hinsvegar vaxið um meira en 40%, en tveir áfangar við Hellisheiðarvirkjun hafa verið teknir í notkun á þessu tímabili.

Heildarárangur Plansins nemur nú 48,2 milljörðum króna af þeim 51,3 milljörðum, sem það á að skila til ársloka 2016.

Efnahagur Orkuveitunnar hrundi á árinu 2008 og fór eiginfjárhlutfall fyrirtækisins lægst í 14%. Með bættri afkomu, sem nýtt hefur verið til niðurgreiðslu skulda, hefur efnahagurinn styrkst. Eiginfjárhlutfallið er nú komið í 31,1% og er þar með komið yfir 30%, sem er mikilvægur áfangi í samskiptum fyrirtækisins á fjármálamörkuðum.

Tekjur samstæðu Orkuveitunnar minnka frá árinu 2014 og er það vegna lágs álverðs framan af ári. Verulegur árangur hefur náðst í að verja rekstur Orkuveitunnar fyrir sveiflum í álverði, vöxtum og gengi með samningum við erlendar fjármálastofnanir.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×