Viðskipti innlent

Hagnaður Landsvirkjunar 7,6 milljarðar á síðasta ári

Atli Ísleifsson skrifar
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. Vísir/Vilhelm
Hagnaður Landsvirkjunar nam 66,8 milljónum Bandaríkjadala, eða 7,6 milljarða króna, á síðasta ári. Hagnaðurinn var 84,2 milljónir Bandaríkjadala árið 2015.

Ársreikningur Landsvirkjunar var kynntur í dag þar sem kom fram að rekstrartekjur námu 420,4 milljónum Bandaríkjadala (47,5 milljarða króna) og lækkuðu um 1,1 milljón Bandaríkjadala frá fyrra ári.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir afkomu á árinu 2016 vera vel ásættanlega, þótt hún hafi dregist saman milli ára. „Ytri aðstæður voru ekki hagfelldar á árinu 2016. Álverð var áfram lágt, þótt það hafi farið hækkandi á seinni hluta ársins. Enn eru tekjur okkar að nokkru leyti bundnar við álverð. Þá minnkaði selt magn milli ára þvert á áætlanir, vegna rekstrarvanda viðskiptavina. Þrátt fyrir þetta héldust tekjur nærri óbreyttar milli ára,“ segir Hörður.

Nettó skuldir lækkuðu

Í tilkynningu segir að EBITDA hafi numið 301,7 milljónum Bandaríkjadala (34,1 milljarðar króna) og lækkar um 20 milljónir dala frá fyrra ári. EBITDA hlutfall er 71,8 prósent af tekjum, en var 76,3 prósent árið áður. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 117,7 milljónum Bandaríkjadala (13,3 milljarðar króna), en var 130,6 milljónir Bandaríkjadala árið áður og lækkar því um 9,9 prósent milli tímabila.

Nettó skuldir lækkuðu um 24,9 milljónir dala (2,8 milljarðar króna) á árinu 2016 og voru í árslok 1.960,5 milljónir dala (221,5 milljarðar króna). Handbært fé frá rekstri nam 229,8 milljónum Bandaríkjadala (26,0 milljarðar króna), 7,7 prósenta lækkun frá 2015.

Sterkt sjóðsstreymi

Hörður segir að sterkt sjóðstreymi hafi gert meira en að standa undir framkvæmdum við nýja vatnsaflsvirkjun Búrfell II og jarðvarmavirkjun við Þeistareyki. „Það er ánægjulegt að geta unnið að þessari uppbyggingu og hækka ekki skuldir, heldur þvert á móti lækka þær.

Lækkun skulda á undanförnum árum er að skila sér í auknum mæli í rekstri fyrirtækisins en það sést á verulegri lækkun vaxtagjalda milli ára.

Lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar hækkaði um einn flokk í janúar 2017 og hefur fyrirtækið hækkað um þrjá flokka á síðustu árum. Fyrirtækið er í fjárfestingarflokki án ríkisábyrgðar og nálgast nú sambærileg fyrirtæki í nágrannalöndunum að þessu leyti,“ segir Hörður.

Nánar má lesa um ársreikninginn á heimasíðu Landsvirkjunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×