Viðskipti innlent

Hagnaður HB Granda minnkaði um þriðjung

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Frá skráningu HB Granda á aðallista Kauphallarinnar í apríl.
Frá skráningu HB Granda á aðallista Kauphallarinnar í apríl. vísir/stefán
Hagnaður HB Granda á fyrri helmingi ársins nam 10,6 milljónum evra, eða 1632 milljónum króna. Þetta kemur fram í árshlutareikningi sem var samþykktur á stjórnarfundi í morgun. Hagnaðurinn á fyrri helmingi ársins í fyrra nam hins vegar 2495 milljónum króna. Þetta þýðir að hagnaður HB Granda hefur lækkað um 863 milljónir króna eða um 34%.

Hagnaðurinn nam 755 á öðrum ársfjórðungi en var 924 milljónir á sama tímabili í fyrra.

Rekstrartekjur HB Granda hf. á fyrri helmingi ársins 2014 námu 87,3 milljónir evra, samanborið við 99,3 milljónir evra árið áður. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 18,7 milljónir evra eða 21,4% af rekstrartekjum, en var 24,1 m€ eða 24,3% árið áður.

Kolmunnavertíð á öðrum ársfjórðungi skilaði hærri tekjum en árið áður, segir í afkomutilkynningu en skip félagsins veiddu 41 þúsund tonn samanborið við 21 þúsund tonn árið áður. Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru neikvæð um 1,3 milljónir evra, en voru jákvæð um 2,9 milljónir á sama tíma árið áður. Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 1,8 milljónir evra, en voru neikvæð um 1,5 milljónir árið áður.

Arion banki annaðist hlutafjárútboð á hlutum í félaginu sem lauk þann 10. apríl síðastliðinn. Vogun hf., Arion banki hf. og Fiskveiðahlutafélagið Venus hf. seldu 25,4% af eignarhlut sínum til 2.500 hluthafa. Í kjölfar útboðsins voru hlutabréf félagsins tekin til skráningar á NASDAQ OMX þann 25. apríl 2014. Markaðsvirði félagsins í lok annars ársfjórðungs var 51,9 milljarðar króna og lokagengi hlutabréfa var 28,5. Hluthafar voru 2.392 í lok ársfjórðungsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×