Innlent

Hagfræðingur ASÍ gefur kvótafrumvörpum falleinkunn

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Hagfræðingur ASÍ telur að ný frumvörp um stjórn fiskveiða veiki stoðir sjávarútvegsins sem atvinnugreinar. Þá telur hann að breytingarnar veiti ráðherra mikil völd en pólitísk inngrip ráðherra veiki atvinnulífið.

Þetta kemur fram í minnisblaði sem Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, vann fyrir atvinnumálanefnd Alþýðusambandsins og fjallar um frumvörp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.

Ólafur Darri segir að almennt megi ætla að fyrirhugaðar breytingar veiki stoðir sjávarútvegsins sem atvinnugreinar og veiki tengsl veiða og vinnslu.

Þá segir í minnisblaðinu að takmörkun á varanlegu framsali aflaheimilda muni draga úr hagræðingu og veikja sjávarútveginn til lengri tíma litið. Sú breyting muni hafa áhrif á verðmæti fyrirtækja með veiðiréttindi sem hefði svo keðjuverkandi áhrif á lánasafn bankanna. Það sé áhyggjuefni í umhverfi þar sem bankarnir séu enn að ná sér á strik eftir bankahrunið.

Stóra frumvarp ráðherra felur m.a í sér að 15 prósent kvótans verða í sérstökum pottum sem úthlutað verður úr m.a á grundvelli byggðasjónarmiða.

Veitir ráðherra mikil völd og stuðlar að óhagkvæmni í atvinnulífinu


Í minnisblaði hagfræðings ASÍ segir að frumvarpið veiti ráðherra mikil völd í kvótakerfinu. Pottafyrirkomulagið minni á gamla tíma þegar úthlutunarkerfi voru á hendi ráðherra. Pólitísk inngrip hafi ekki verið árangursrík og hafi nær alltaf aukið óhagkvæmni í atvinnulífinu.

Í minnisblaðinu segir að krónan muni veikjast verði frumvarpið að veruleika þar sem rekstrargrunnur sjávarútvegsins verði verri. Og óhagkvæmnin og aukin gjaldtaka muni kalla á lægra raungengi til framtíðar.

ASÍ hefur ekki neinna beinna sérstakra hagsmuna að gæta þegar kemur að breytingum á lögum um stjórn fiskveiða, ólíkt t.d LÍÚ. Minnisblaðið verður lagt fyrir miðstjórn ASÍ á miðvikudaginn næstkomandi, en það var ekki sérstakur vilji Alþýðusambandsins að það yrði birt opinberlega og þurfti fréttastofan að nálgast það eftir krókaleiðum.

Ólafur Darri sagði við fréttastofu að minnisblaðið væri vinnuskjal sem hefði verið unnið af sér og öðrum í hagdeild ASÍ og að minnisblaðið endurspeglaði ekki opinbera afstöðu ASÍ til frumvarpa sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hann vildi ekki koma í viðtal um málið að svo stöddu. thorbjorn@stod2.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×