Viðskipti innlent

Hafa lokað tæplega 40 útibúum

Viðskiptabankarnir þrír hafa lokað tæplega 40 útibúum á undanförnum árum. Einu útibúi á Suðurnesjum var lokað þar í  síðustu viku og í gær tilkynnti Arionbanki um þá ákvörðun að loka afgreiðslu bankans á Hólmavík. Bankastjóri Arionbanka segir að þjónustan sé að mörgu leyti að færast yfir á netið.

Ákvörðun Arionbanka um að loka útibúinu á Hólmavík féll í grýttan jarðveg hjá sveitarstjórn Strandabyggðar sem lýsti í dag yfir vonbrigðum og reiði vegna málsins. Fyrr í þessum mánuði lokaði Landsbankinn útibúi sínu í Sandgerði og töluðu heimamenn um svik í því sambandi.

Á síðustu árum hafa viðskiptabankarnir lokað á fjórða tug útibúa, á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni, vegna hagræðingar og sameiningar bankastofnana.

Þannig hefur Íslandsbankið lokað 9 útibúum, Landsbankinn 13 og Arionbanki 16. Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga segir slæmt þegar íbúar minni sveitarfélaga þurfi að ferðast langar vegalengdir til að komast í næsta bankaútibú.

„Allt áhrif á hvernig það er að búa á viðkomandi stað. Öll þjónustan hefur þar gríðarleg áhrif. Við vitum að mikið af henni er komin inn á heimilin í gegnum heimabanka. En það er alltaf einhver hluti þjónustunnar þar sem íbúar og fyrirtæki eru háð því að geta farið í útibúið. Þannig að auðvitað getur þetta haft slæm áhrif,“ segir Halldór.

Höskuldur H. Ólafsson bankastjóri Arionbanka segist skilja áhyggjur sveitarstjórnarmanna en segir að þjónustan sé að mörgu leyti að færast yfir á Netið.

„En auðvitað skilur maður eins og með útibú bankans á Hólmavík að það skiptir máli. Það er lítil eining en við horfum líka til þess að það er annar banki, Sparisjóður Strandamanna, með afgreiðslu þannig að það  verður áfram fjármálastofnun á staðnum,“ segir Höskuldur. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×