Handbolti

Hætti við að skilja markakóng HM eftir heima

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dragan Gajic fagnar marki á HM í Katar 2015.
Dragan Gajic fagnar marki á HM í Katar 2015. Vísir/EPA
Slóvenar urðu að gera breytingu á EM-hópi sínum rétt fyrir Evrópumótið í handbolta í Póllandi og hornamaðurinn Dragan Gajic er því á leiðinni á EM eftir allt saman.

Fyrr í vikunni bárust fréttir af því að Veselin Vujović, þjálfari slóvenska landsliðsins, ætlaði ekki að velja markakóng síðasta heimsmeistaramóts í hópinn sinn en það breyttist allt.

Nú er nefnilega komið í ljós að Jure Dolenec getur ekki tekið þátt í Evrópumótinu vegna meiðsla en hann er samherji Dragan Gajic hjá Montpellier. Vujović ákvað því að kalla á Dragan Gajic sem æfði bæði og spilaði með slóvenska landsliðinu í undirbúningnum fyrir mótið.

Dragan Gajic hefur skorað 68 mörk fyrir Montpellier í frönsku deildinni í vetur eða níu mörkum meira en Jure Dolenec, Þeir eru tveir markahæstu leikmenn liðsins. Gajic hefur skorað 20 af mörkum sínum úr vítum en Dolenec hefur bara tekið eitt víti.

Dragan Gajic fór á twitter eftir Vujović ákvað að velja hann ekki og sagði að það hafi aldrei verið gott andrúmsloft á milli sín og þjálfarans. Gajic var einnig á twitter í dag og sagði þá að það væri alltaf heiður að spila fyrir slóvenska landsliðið.

Dragan Gajic skoraði 71 mark í 9 leikjum á HM í Katar og skoraði fjórum mörkum meira en næsti maður. Hann var einnig valinn í úrvalsliðið og hjálpaði Slóvenum að ná áttunda sætinu.

Veselin Vujović tók við slóvenska landsliðinu í maí síðastliðinn og EM í Póllandi verður fyrsta stórmót hans með liðið.

Vujović var bæði heimsmeistari (1986) og Ólympíumeistari (1984) með júgóslavneska landsliðinu á sínum tíma en hann er fæddur í Svartfjallalandi.

Slóvenar eru í svakalegum riðli á EM en þeir mæta Spáni, Svíþjóð og Þýskalandi í C-riðli Evrópumótsins. Fyrsti leikurinn er á móti Svíum á laugardaginn.

Dragan GajicVísir/EPA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×