Erlent

Hættan af pírötum minnkar

Atli Ísleifsson skrifar
Búið er að herða eftirlit í kringum Indónesíu og austur af Afríku.
Búið er að herða eftirlit í kringum Indónesíu og austur af Afríku. Vísir/AFP
Árásum sjóræningja hefur fækkað síðustu misserin og hefur fjöldi skráðra árása ekki verið minni síðan árið 1995.

Frá þessu segir í frétt SVT og er þetta haft eftir alþjóðasiglingamálaskrifstofunni International Maritime Bureau (IMB).

Á fyrri hluta ársins hafa 98 árásir sjóræningja verið skráðar, samanborið við 134 á sama tímabili í fyrra. Rúmlega fjögur hundruð árásir voru skráð bæði árið 2003 og 2010.

Pottengal Mukundan, forstjóri IMB, segir fækkun árása sjóræningja vera uppörvandi fréttir. Hann segir að ástæður fækkunarinnar megi fyrst og fremst rekja til öflugra eftirlits í kringum Indónesíu og austur af Afríku þar sem sómalskir sjóræningjar hafa lengi verið skæðir.

Þó að árásum fari víðast hvar fækkandi þá hefur þeim fjölgað í Vestur-Afríku, þar sem fjöldinn hefur tvöfaldast frá fyrra ári. Þannig voru skráðar 24 árásir á fyrri hluta þessa árs, samanborið við tíu á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×