Innlent

Hætta áratuga samstarfi við Kertaverksmiðjuna Heimaey

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Sveinn bendir á að fólkið sem starfi í verksmiðjunni gangi ekki beint í önnur störf.
Sveinn bendir á að fólkið sem starfi í verksmiðjunni gangi ekki beint í önnur störf. Mynd / Eyjar.net
Hjálparstarf kirkjunnar hefur slitið samstarfi við Kertaverksmiðjuna Heimaey um framleiðslu friðarkerta. Þriggja ára samningur rann út um áramót en hann hefur ekki verið endurnýjaður. Samstarf hefur verið á milli verksmiðjunnar, sem er verndaður vinnustaður, og kirkjunnar um áratuga skeið.

Færri fá vinnu fyrir vikið

„Þeir vildu snúa sér annað,“ segir Sveinn Pálmason, forstöðumaður kertaverksmiðjunnar, í samtali við Vísi. Hann segir þetta mikið áfall fyrir starfsemina. Samkvæmt frétt vefsíðunnar Eyjar.net stendur til að kaupa kerti frá Póllandi.

„Þetta er starf fyrir allavega þrjá í fjóra mánuði,“ segir Sveinn sem telur þó ekki að rekstargrundvöllur verksmiðjunnar sé brostinn. Verkefnastaðan sé þó ekki góð og færri hafi fengið vinnu í ár en áður. „Þetta þýðir það bara að það er færra fólk sem fær atvinnu.“

Ákveðið hjálparstarf

Starfsemi kertaverksmiðjunnar hefur mikla þýðingu fyrir starf með fötluðum í Eyjum. „Fólk sem hefur verið hér í vinnu, það er ekki komið út á almennan vinnumarkað,“ segir hann. „Það gengur ekki inn í eitthvað starf sem bíður eftir þeim.“

Sveinn furðar sig á því að engin umræða hafi farið fram um áframhald samstarfsins og bendir á að það hefði einfaldlega verið hægt að fara í útboð. „Manni finnst að það væri hægt að meta það líka hvaða starfsemi fer fram hérna. Það er náttúrulega ákveðið hjálparstarf,“ segir Sveinn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×