Viðskipti innlent

Hægt að beisla verðbólguna með evru eða Tobin-skatti

Einhver kynni að líkja baráttunni við verðbólgu hér á landi við eilífðarmokstur. Í nýrri grein í Vísbendingu segir Gylfi Zoëga, hagfræðingur sem sæti á í peningastefnunefnd Seðlabankans, tvær færar leiðir í baráttunni. Fréttablaðið/GVA
Einhver kynni að líkja baráttunni við verðbólgu hér á landi við eilífðarmokstur. Í nýrri grein í Vísbendingu segir Gylfi Zoëga, hagfræðingur sem sæti á í peningastefnunefnd Seðlabankans, tvær færar leiðir í baráttunni. Fréttablaðið/GVA
Náin tengsl breytinga á gengi krónunnar og verðbólgu hafa orðið til þess að rýra trúverðugleika Seðlabankans. Þetta kemur fram í nýrri grein Gylfa Zoëga hagfræðiprófessors í nýjasta hefti efnahagsritsins Vísbendingar. Gylfi, sem sæti á í peningastefnunefnd Seðlabankans, bendir á að árið 2003 sé eini tíminn þar sem bankinn hafi náð verðbólgumarkmiði sínu.

Í grein sinni kemst Gylfi að þeirri niðurstöðu að stöðugt gengi sé forsenda fyrir stöðugu verðlagi hér á landi, enda séu náin tengsl gengis og verðlags einkennandi fyrir mjög lítil hagkerfi og útskýri mikla og sveiflukennda verðbólgu í þeim löndum.

„Kerfi með föstu gengi myndi því framkalla stöðugra verðlag og gera afnám verðtryggingar mögulegt," segir Gylfi og telur þátttöku í evrópska myntsamstarfinu virðast eina framkvæmanlega fastgengiskerfið. „Valið stendur því á milli þess að taka þátt í evrusamstarfi eða hafa fljótandi gengi með Tobin-skatti og öðrum aðgerðum sem ætlað er að draga úr sveiflum á gengi krónunnar."

Gylfi vísar til niðurstöðu nýlegrar ritgerðar um að gengisbreytingar hafi meiri áhrif á verðákvarðanir hér en í öðrum þróuðum ríkjum. „Fyrirtæki sem nota innflutt aðföng breyta verði í kjölfar gengisbreytinga og önnur fyrirtæki fara svo eftir þróun verðvísitölu neysluverðs."

Til þess að taka á sveiflum krónunnar með viðskiptakjörum og spákaupmennsku á markaði, mætti taka upp fyrrnefndan Tobin-skatt á gjaldeyrisviðskipti. Og þar sem hann feli ekki í sér magntakmarkanir segir Gylfi hann samræmast reglum EES-samningsins. Skatturinn komi því vel til greina sem hluti af endurbættu peningakerfi í kjölfar þess að gjaldeyrishöft verði afnumin.

Tekjur af Tobin skatti gætu orðið verulegar, auk þess sem með honum fengi Seðlabankinn öflugra tæki til að hafa áhrif á hagþróun, að mati Gylfa. Hann bendir á að eins prósents skattur á kaup og sölu gjaldeyris, ofan á það sem til dæmis Arion banki ákvæði, fæli í sér að vildi fjárfestir kaupa krónur í byrjun viku og selja í lok hennar jafngilti skatturinn 180 prósenta kostnaði á ársgrundvelli. Því þyrfti vaxtamunur að nema 180 prósentum hið minnsta til að það borgaði sig að stunda spákaupmennsku. olikr@frettabladid.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×