Enski boltinn

Gylfi um Fabianski: Gagnrýndum hann ekkert því hann hefur bjargað okkur svo oft

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar hans í Swansea gerðu jafntefli við Tottenham, hans gamla félag, í áttundu umferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn.

Gylfi átti lykilsendingu í fyrra marki sem Swansea sem Andre Ayew skoraði og Harry Kane varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Swansea tókst ekki að vinna leikinn þrátt fyrir að komast tvisvar sinnum yfir því Christian Eriksen skoraði tvö mörk beint úr aukaspyrnum og jafnaði leikinn í tvígang.

Fyrra markið var sérstaklega klaufalegt af hálfu Lukasz Fabianski, markvarðar Swansea, sem leyfði Eriksen að skora í markmannshornið. Boltinn fór reyndar bara rétt framhjá honum en Fabianski var búinn að taka skrefið til hægri og því var ekki aftur snúið.

"Við fengum á okkur klaufaleg mörk gegn Tottenham. Við gefum tvær aukaspyrnur frekar ódýrt en seinni spyrnan hjá Eriksen var frábær," sagði Gylfi Þór við Vísi um mörkin tvö. Það er rétt hjá Gylfa að seinni spyrnan var ansi lagleg eins og sjá má í myndbandinu efst í fréttinni, en aftur var skotið í markmannshornið.

Gylfi í baráttu við Andros Townsend.Vísir/Getty
En hvernig eru svona mistök tækluð í klefanum í ensku úrvalsdeildinni? Swansea hefði getað komist aftur á sigurbraut en er þess í stað án sigurs í fjórum leikjum í röð.

"Hann var mjög ósáttur við sjálfan sig. Við gagnrýndum hann ekkert því hann hefur bjargað svo mörgum leikjum fyrir okkur. Hann var svekktur út í sjálfan sig að taka sénsinn. Þegar líkamsþyngdin var komin yfir á hægri fótinn var ekki hægt að snúa við," sagði Gylfi Þór Sigurðsson.

Fabianski til varnar hefur hann verið frábær í liði Swansea undanfarin misseri, en hann hélt ellefu sinnum hreinu í fyrra og var í baráttunni um gullhanskann fram í lokaumferðina.


Tengdar fréttir

Eriksen tryggði Tottenham stig gegn Swansea

Danski miðjumaðurinn Christian Eriksen setti tvö mörk í 2-2 jafntefli Tottenham og Swansea í dag en bæði mörk hans komu beint úr aukaspyrnum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×