Enski boltinn

Gylfi er fullkominn leikmaður fyrir Tottenham

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gylfi í leik með Swansea.
Gylfi í leik með Swansea. vísir/getty
Mauricio Pochettino, stjóri Tottenham, segir að það sé synd að Gylfi Þór Sigurðsson hafi verið seldur frá Tottenham því hann sé fullkominn leikmaður fyrir félagið.

Það var Andre Villas-Boas sem keypti Gylfa til Spurs árið 2012 en Pochettino sem síðan seldi hann á sínum tíma til Swansea.

„Eftir að Gylfi fór til Swansea þá sáum við hann þróast þar. Á þeim tíma sem hann fór var það ákvörðun félagsins og leikmannsins að fara. Ég held að hann sé fullkominn leikmaður fyrir okkur,“ sagði Pochettino.

„Í hvert skipti sem við spilum við hann þá sýnir hann gæði. Ekki bara sem leikmaður heldur líka sem einstaklingur. Það tala allir mjög fallega um hann hér hjá félaginu. Það er synd að hann hafi farið en svona er fótboltinn.“

Gylfi mætir á sinn gamla heimavöll á morgun og fær þá tækifæri til þess að minna Spurs á að það hafi verið mistök að láta hann fara á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×