Innlent

Gunnar í Krossinum fagnar aðkomu lögreglu

Gunnar Þorsteinsson
Gunnar Þorsteinsson
Gunnar Þorsteinsson, forstöðumaður Krossins, segist fagna því að mál hans sé komið í lögformlegan farveg. Gunnar sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfar umfjöllunar um að konurnar sex sem saka hann um kynferðislega áreitni hafi tilkynnt málin til lögreglu.

„Að þessu máli liggja ýmsir þræðir og verður tíminn að skera úr um hvort hægt verður að rekja þá til upphafs síns, en ég fagna því að geta tjáð mig við ábyrga aðila," segir í yfirlýsingu frá Gunnari. Þá segir að stjórn Krossins hafi reynt að stofna fagráð í kjölfar málanna, en það hafi verið án árangurs.

Stjórn Krossins hefur nú tekið þá ákvörðun að engin ástæða sé lengur til þess að stofna fagráð innan félagsins. Þó var stofnun slíks ráðs samþykkt einróma á safnaðarfundi í desember.

„Þrátt fyrir mikinn og einlægan vilja af hálfu stjórnar Krossins þá hefur enn ekki tekist að skipa fagráð en við teljum fullreynt í þeim efnum," segir í yfirlýsingu frá stjórninni. Að lokum segir: „Með kæru til lögreglu hafa ásakendur tekið málin í sínar hendur og lítur stjórn Krossins eðlilega svo á að frekari vinna við að setja á fót fagráð sé ekki til neins."

Konurnar hafa þó ekki enn lagt fram formlega kæru á hendur Gunnari.

- sv



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×