Innlent

Gunnar Bragi: „Ég hef engar áhyggjur"

Una Sighvatsdóttir skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson landbúnaðarráðherra segist engar áhyggjur hafa af því að ekki náist samstaða um búvörusamningana.
Gunnar Bragi Sveinsson landbúnaðarráðherra segist engar áhyggjur hafa af því að ekki náist samstaða um búvörusamningana.
Uppnám ríkir um búvörusamningana sem skrifað var undir milli ríkis og bænda í vetur. Ekki er meirihluti um samningana í núverandi mynd á Alþingi en bændur segja að verði of miklar breytingar gerðar þurfi að semja upp á nýtt. Samkvæmt landbúnaðarráðherra er málið hinsvegar stormur í vatnsglasi, hann hefur fulla trú á því að eftir meðför atvinnuveganefndar muni sást ná um samninginn.

„Ég geri bara ráð fyrir að nefndin skili af sér góðum tillögum sem bæti samninginn, eða það er að segja útfærsluna á honum. Því við erum ekki að tala um að gera nýjan samning, að taka upp samninginn. Við erum að tala um að gera breytingar sem rúmast innan þess ramma sem hann heimilar,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson.

„Ég hef engar áhyggjur af því að ekki náist sátt um þetta."

Efast um sekt Mjólkursamsölunnar

Gunnar Bragi telur ekki sérstakt tilefni til að endurskoða þann hluta samninganna sem snýr að einokunarstöðu Mjólkursamsölunnar, þrátt fyrir hálfs milljarðs króna sekt Samkeppniseftirlitsins á dögunum.

„Mjólkursamsalan er fyrirtæki sem er eins og allir vita í einokunarstöðu. Um það gildir ákveðnar reglur og þeim ber að fara eftir þeim. Það kemur í ljós hvort þeir hafi brotið af sér eða ekki. Ég hef síður trú á því að þeir hafi brotið af sér, þetta er fyrirtæki sem í gegnum tíðina hefur sýnt samfélaginu mikla ábyrgð.“

Ari Edwald forstjóri MS sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem hann baðst afsökunar á fyrstu viðbrögðum sínum við niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins og dró til baka að neytendur muni borga mögulega sektargreiðslu. Þá sagði hann málinu ekki lokið enda geri MS sér von um að niðurstaða áfrýjunarnefndar verði önnur og sektin dregin til baka.

Mikilvægt að viðhalda kerfinu

Gunnar Bragi segir mikilvægt að halda í það kerfi sem hér er um umsýslu mjólkur, vegna eðlis íslensks landbúnaðar. Hann segir ekki hægt að bera saman MS og smærri framleiðendur.

„Lítill einkaaðili gæti aldrei sinnt þeirri ábyrgð sem er sett á herðar Mjólkursamsölunnar, til dæmis það að vera skyldugt að kaupa alla mjólk. Það er enginn annar aðili skyldugur til þess. En að sama skapi geta smærri aðilar, eins og Kú, keypt beint af bændum og maður spyr þá: Af hverju gera þeir það ekki?“

Enn er því stefnt að því að ljúka búvörusamningunum á sumarþingi í ágúst, en Gunnar Bragi hafnar því að það sé sérstakt kappsmál fyrir framsóknarflokkinn einab. „Þetta er forgangsmál ríkisstjórnarinnar að klára þetta því það eru ríkisstjórnarflokkarnir sem bera ábyrgð á þessu máli. Eitt af mörgum málum sem við viljum klára áður en verður kosið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×