Innlent

Guðni skipti um skoðun og bauð Tinnu til fundar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Tinna Brynjólfsdóttir og Guðni Th. Jóhannesson munu hittast í dag.
Tinna Brynjólfsdóttir og Guðni Th. Jóhannesson munu hittast í dag.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mun í dag hitta Tinnu Brynjólfsdóttur á fundi á skrifstofu forseta við Sóleyjargötu í Reykjavík. Tinna hafði óskað eftir fundi með Guðna en hann svaraði erindi hennar á þá leið á honum væri ekki heimilt að hlutast til um málefni einstaklinga sem telja á sér brotið í stjórnkerfinu. Benti hann á að í því ljósi væri ekki skynsamlegt að þau myndu eiga fund.

Tinna er eiginkona Magnúsar Arnar Arngrímssonar sem hlaut tveggja ára fangelsisdóm í Hæstarétti í hinu svokallaða BK-máli í desember 2015 auk þess sem hann hlaut tveggja ára fangelsisdóm í Aurum-málinu í héraðsdómi í nóvember árið 2016.

Tinna skrifaði grein á Vísi sem birtist í gær um samskipti sín við forseta og vakti mikla athygli. Hún gagnrýndi ákvörðun forseta mjög um að neita að hitta hana og í kjölfarið birtist önnur grein á Vísi eftir Ingibjörgu Kristjánsdóttur, eiginkonu Ólafs Ólafssonar, þar sem hún tók undir sjónarmið Tinnu. Ólafur var dæmdur í fjögurra ára fangelsi í Hæstarétti í Al Thani-málinu í febrúar 2015.

Samkvæmt heimildum Vísis hafði embætti forseta Íslands samband við Tinnu í gær og bauð henni til fundar við Guðna. Forsetinn skipti því um skoðun, Tinna þáði boðið og mun eins og áður segir hitta hann síðdegis í dag.


Tengdar fréttir

Forseti Íslands og óhreinu börnin hennar Evu

Grein Tinnu Brynjólfsdóttur á Vísi í morgun þar sem hún segir frá höfnun forseta Íslands, Guðna Th Jóhannessyni á beiðni sinni um viðtal er athyglisverð.

Fékk ekki fund með forsetanum

Ég ákvað að senda forsetanum línu því hann á víst að vera svo mikið til í að hitta og spjalla við fólkið sitt í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×