Íslenski boltinn

Guðmundur: Vont fyrir Blika að missa Ólaf

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Benediktsson.
Guðmundur Benediktsson. Vísir/Anton
Guðmundur Benediktsson segist hafa lært heilmikið af því að starfa með Ólafi Kristjánssyni síðustu ár.

Í dag var tilkynnt að Guðmundur muni taka við Breiðabliki af Ólafi sem hefur verið ráðinn þjálfari danska úrvalsdeildarfélagsins Nordsjælland.

„Mér líst mjög vel á þetta og er þakklátur fyrir þetta frábæra tækifæri,“ sagði Guðmundur í samtali við Vísi í dag. „Ég er ákaflega ánægður með að Breiðablik skuli treysta mér fyrir því.“

Ólafur mun þó stýra Blikum þar til hann lætur af störfum þann 2. júní. „Við höldum því áfram okkar vinnu líkt og við höfum gert undanfarin ár,“ sagði Guðmundur sem hefur verið aðstoðarmaður Ólafs frá því að hann hætti sem þjálfari Selfoss haustið 2010.

„Ég leyfi mér þó að segja að það sé vont fyrir Breiðablik að missa mann sem hefur unnið gott starf fyrir félagið allt í að verða átta ár.“

Hann segir þó að margt hafi breyst hjá sér síðan hann þjálfaði Selfyssinga á sínum tíma.

„Þegar ég tók við Selfossi á sínum tíma var ég glænýr og hafði aldrei þjálfað neitt. Í dag er ég eldri, þyngri og reynslunni ríkari,“ bætti Guðmundur við.

„Ég hef verið það heppinn að fá að vinna með Óla í þennan tíma en hann er klárlega besti þjálfari landsins að mínu mati. Þessi viðurkenning sýnir það enn frekar.“

Guðmundur er einna þekktastur fyrir störf sín sem íþróttafréttamaður á Stöð 2 Sport og hefur hann vilja til að halda þeim störfum áfram.

„Þetta kom upp með það skömmum fyrirvara að það á enn eftir að finna lausn. Það mál er í vinnslu og er ekki komið á hreint hvað verður,“ sagði Guðmundur.


Tengdar fréttir

Guðmundur tekur við Breiðabliki

Guðmundur Benediktsson mun stýra liði Breiðabliks í Pepsi-deild karla sumar þar sem að Ólafur Kristjánsson er hættur störfum hjá félaginu.

BT: Ólafur á leið til Nordsjælland

Danska blaðið BT staðhæfir að danska úrvalsdeildarfélagið Nordsjælland eigi í viðræðum við Ólaf Kristjánsson, þjálfara Breiðabliks.

Ólafur: Einbeiti mér nú að Blikum

Ólafur Kristjánsson segir í viðtali sem birtist á heimasíðu Nordsjælland að hann hlakki til að takast á við nýjar áskoranir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×