Íslenski boltinn

Guðmann: Ekkert ósætti við Heimi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmann Þórisson í leik með FH á móti KR.
Guðmann Þórisson í leik með FH á móti KR. Vísir/Andri Marinó
Guðmann Þórisson var lánaður í 1. deildarlið KA í morgun eins og áður hefur verið fjallað um. Tíðindin komu á óvart enda er keppnistímabilið í Pepsi-deildinni að hefjast á morgun.

FH mun spila gegn Þrótti í opnunarleik Pepsi-deildarinnar klukkan 16.00 á morgun.

Guðmann var í viðtali í Fótbolta.net þættinum á X-inu í hádeginu og var spurður hvort að eitthvað hefði komið upp sem varð til þess að hann fór svo skyndilega frá FH, til dæmis ósætti við þjálfarann Heimi Guðjónsson.

„Ég var að reyna að rifja upp hvort það hafi verið eitthvað sem kom upp á milli okkar. En við höfum alltaf verið góðir vinir. Það er ekki eitthvað sem okkur fór á milli sem olli þessu,“ sagði Guðmann.

„Ég held að KA hafi einfaldlega gert FH gott tilboð sem FH-ingar hafi samþykkt.“

Guðmann var ósáttur við að fá ekki stærra hlutverk í liði FH. „Mér finnst ég vera það góður hafsent að ég eigi ekki að vera á bekknum. Í gær var mér tilkynnt að það hefði verið samþykkt tilboð frá KA. Mér leist vel á þetta.“

„Ég hefði viljað fá meiri séns í vetur. Þetta er fyrsta undirbúningstímabilið í langan tíma þar sem ég hef verið heil og í standi og þá er leiðinlegt að vera á bekknum.“

Guðmann mun flytja norður og segist hlakka til að búa á Akureyri. Þá sé metnaðarfullt starf í gangi í KA.

„Þeir eru að leggja mikið í að fá mig og ég verð að skila því til baka,“ sagði Guðmann sem viðurkennir þó að hann hefði gjarnan viljað vera áfram í FH gegn því að fá að spila reglulega þar.

„Draumastaðan var að spila alla leiki með FH. En út frá þeirri stöðu sem upp var komin þá er ég sáttur.“


Tengdar fréttir

Guðmann til KA

Varnarmaðurinn Guðmann Þórisson er genginn í raðir 1. deildarliðs KA og mun leika með liðinu á komandi tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×