Handbolti

Guðjón Valur: „Ég brást kannski aðeins of harkalega við“ | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur í gær en svolítið pirraður eftir leik.
Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur í gær en svolítið pirraður eftir leik. vísir/getty
Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsfyrirliði í handbolta, og Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson, íþróttafréttamaður RÚV, grafa stríðsöxina í viðtali sem birt var á Twitter-síðu íþróttadeildar RÚV nú fyrir skömmu.

Guðjóni leiddist mjög spurning Þorkels eftir leik í gærkvöldi um hinn víðfræga „slæma kafla“ íslenska liðsins sem var svo sannarlega til staðar í seinni hálfleik. Spánverjar skoruðu mest sex mörk í röð og unnu leikinn, 27-21, eftir að Ísland var 12-10 yfir í hálfleik.

Sjá einnig:Guðjón Valur: „Geta ekki skipað mér að fara úr skónum í miðjum leik“

„Ekki byrja á þessu, gerðu það fyrir mig. Þetta er dautt, ef ekki á þessari öld þá [...],“ sagði fyrirliðinn þá. Jú, jú, við getum byrjað á þessu aftur. Allt í lagi, frábært. Slæmi kaflinn, hann drap okkur,“ sagði Guðjón Valur eftir tapið í gærkvöldi.

Þorkell Gunnar lét þetta ekkert slá sig út af laginu og ræddi aftur við landsliðsfyrirliðann í dag á hittingi landsliðsmanna og fréttamanna þar sem Guðjón Valur sá svolítið eftir því hvernig hann brást við.

„Nú er slæmi kaflinn búinn. Ég brást kannski aðeins of harkalega við en það fer aðeins í taugarnar á mér þegar við Íslendingar persónugerum þennan slæma kafla,“ segir Guðjón Valur brosandi.

Sjá einnig:Sorg á Twitter í seinni hálfleik: „Slæmi kaflinn, góða kvöldið“

„Ég vill forða ungu strákunum frá því að þurfa að takast á við þetta í framtíðinni. Slæmi kaflinn var hjá Spánverjum í fyrri hálfleik og hjá okkur í þeim síðari. Við erum góðir held ég áfram.“

Þorkell spurði Guðjón hvort hann ætti ekki bara að spyrja betri spurninga. „Alls ekki. Þú ert í þinni vinnu og ég í minni vinnu. Það er ágætt að nuddast stundum en svo klárum við þetta bara eins og menn eftir á,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson.

Myndband af þessum sættum má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×