Enski boltinn

Guardiola tapaði fyrsta leiknum sínum með Manchester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola heilsar starfsmönnum Bayern München fyrir leik.
Pep Guardiola heilsar starfsmönnum Bayern München fyrir leik. Vísir/Getty
Pep Guardiola stýrði Manchester City í fyrsta sinn í kvöld en varð þá að sætta sig við tap á móti sínum gömlu lærisveinum í Bayern München á sínum gamla heimavelli Allianz Arena.

Bayern München vann leikinn 1-0 en bæði liðin voru án lykilmanna sem hafa ekki skilað sér til baka eftir Evrópukeppnina í Frakklandi og Ameríkukeppnina í Bandaríkjunum.

Pep Guardiola var sem dæmi með tólf leikmenn úr unglingaliði félagsins í hópnum. Hann hætti sem þjálfari Bayern München fyrir aðeins tveimur mánuðum síðan en ítalinn Carlo Ancelotti tók við starfi hans.

Eina mark leiksins skoraði hinn tvítugi Erdal Ozturk skoraði á 76. mínútu með skoti sem fór af varnarmanninum Gäel Clichy og í mark Manchester City. Ozturk kom til Bayern frá Hoffenheim.

Nýi maðurinn Oleksandr Zinchenko spilaði fyrri hálfleik en þeir Ilkay Gundogan og Nolito komu ekkert við sögu í leiknum.

Næst á dagskrá hjá Manchester City er að ferðast til Kína þar sem næsti leikur liðsins verður á móti Manchester United á mánudaginn. Sergio Aguero, David Silva, Nolito, Raheem Sterling og Joe Hart verða allir með í þeirri ferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×