Enski boltinn

Guardiola ætti að taka við Sunderland til að sanna sig

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dimitri Seluk, umboðsmaður Yaya Touré, og Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, halda áfram að munnhöggvast í fjölmiðlum.

Seluk hefur verið duglegur að tjá sig um Guardiola eftir að Spánverjinn valdi Touré ekki í Meistaradeildarhóp City.

Seluk sagði að Guardiola hefði niðurlægt Touré og skoraði á hann að viðurkenna mistök sín tækist City ekki að vinna Meistaradeild Evrópu.

Þessi ummæli fóru ekki vel í Guardiola sem ætlar ekki að nota Touré fyrr en umboðsmaðurinn biðst afsökunar.

Nú síðast sagði Seluk að Guardiola væri ofmetinn stjóri og þyrfti að sanna sig hjá slakari liðum en þeim sem hann hefur stýrt hingað til á ferlinum.

„Guardiola náði árangri hjá Barcelona og Bayern München en það þarf að skoða þann árangur nánar,“ sagði Seluk.

„Frank Rijkaard byggði upp Barcelona-liðið sem Guardiola tók við. Hann var líka heppinn að hafa Lionel Messi í sínu liði. Það var hann sem bjó þetta Barcelona-lið til, ekki Guardiola. Luis Enrique hefur sýnt að árangur Barcelona var ekki Guardiola að þakka.

„Ef Guardiola vill sanna sig sem frábær stjóri ætti hann að taka við liðum eins og Real Zaragoza eða Sunderland. Sjáum hversu góður hann er þegar hann tekur ekki við frábæru liði og hefur nánast ótakmörkuð fjárráð,“ bætti Seluk við.

Búist er við því að dagar Touré hjá City séu taldir en Guardiola virðist hafa lítinn húmor fyrir framhleypni umboðsmanns hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×