Innlent

Grunnskólakennari líkir samkynhneigðum við bankaræningja

Erla Hlynsdóttir skrifar
Grunnskólakennari við Brekkuskóla líkir samkynhneigð við það að ræna banka, að því leyti að hvorttveggja sé synd. Foreldri barna við skólann segir kennarann ala á mannhatri og fordómum.

Kennarinn, Snorri Óskarsson, kenndur við Betel, er leiðtogi Hvítasunnusafnaðarins á Akureyri.

Hann skrifaði umdeilda bloggfærslu þar sem hann sagði samkynhneigð vera synd og að laun hennar sé dauði.

Foreldri barns í Brekkuskóla gagnrýndi skrif hans harðlega í hádegisfréttum Bylgjunnar.

„Mér finnst þau náttúrulega fyrst og fremst sorgleg. Maður veltir því fyrir sér hvort blessaður maðurinn gengur heill til skógar. Það er auðvitað grafalvarlegt mál að einstaklingur sem hefur það starf að uppfræða börn og unglinga og vinna gegn fordómum, eins og segir í siðareglum kennara, að hann skuli sjá ástæðu til að dreifa þessum sora og ala á jafn miklum fordómum og mannhatri og mér finnst koma fram í skrifum hans," segir Logi Már Einarsson, skólanefndarfulltrúi og foreldri á Akureyri.

En Snorri stendur við gagnrýni sína á samkynhneigð.

„Þessi kynhegðun er óbiblíuleg og þetta er alveg í sama flokki og hver önnur synd. Vandamálið er að það er verið að gera þennan málaflokk eða þessa synd, það er verið að gera hana eðlilega og menn segja að þetta sé allt í lagi og það séu bara mannréttindi að fá að vera svona. Ef ég væri nú bankaræningi að eðlifari, þá væri búið að setja mig inn fyrir langa löngu," segir Snorri í Betel.

En ertu þá í rauninni að líkja því saman að vera bankaræningi og samkynhneigður?

„Að því leytinu til, að hvort tveggja kallað synd. Að stela er synd. Að ágirnast er synd. Og að vera samkynhneigður er synd," segir Snorri.

Ef að nemandi þinn í skólanum kæmi til þín og segðist vera samkynhneigður, hver myndu þín viðbrögð vera?

„Ég myndi sjálfsagt athuga hvort það væri hægt að spjalla við hann," segir Snorri.

Engin svör fengust frá skólastjóra Brekkuskóla á Akureyri vegna málsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×