Körfubolti

Gríska fríkið reyndi að bjarga starfi Jason Kidd á síðustu stundu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jason Kidd hefur gert Giannis að mögnuðum leikmanni.
Jason Kidd hefur gert Giannis að mögnuðum leikmanni. vísir/getty
Eins og kom fram í gærkvöldi var Jason Kidd rekinn sem þjálfari Milwaukee Bucks í NBA-deildinni í körfubolta. Kidd var búinn að stýra liðinu frá því 2014.

Ofurstjarna Milwaukee-liðsins, Giannis Antetokounmpo, eða Gríska fríkið eins og hann er kallaður, var ekki ánægður með þessa ákvörðun forsvarsmanna Bucks og reyndi að bjarga starfi þjálfarans.

Giannis vissi að Kidd yrði rekinn áður en búið að var að segja þjálfaranum það, en það var í raun fríkið sjálft sem lét Kidd fyrstan vita að hann væri ekki lengur þjálfari Bucks.

„Hann hringdi í mig og sagði að hann væri ekki ánægður með þessa ákvörðun. Að þeir ætluðu að láta mig fara. Ég fann á mér að þetta gæti verið að gerast,“ segir Kidd í viðtali við ESPN.

Giannis vildi gera allt sem í hans valdi stóð til að halda Kidd sem þjálfara sínum. „Hvað get ég gert? Ég get hringt í eigendur liðsins eða umboðsmanninn minn,“ sagði Giannis við Kidd en þjálfarinn tjáði leikmanninum að þetta væri búið og gert.

Kidd þakkar Giannis fyrir að standa við bakið á sér en sá gríski hringdi í hann korter í þrjú að bandarískum tíma í gær þegar að hann var að mæta til leiks í Phoenix þar sem Milwaukee vann svo sigur í skugga brottrekstursins í nótt.

„Ég vissi að það var eitthvað í gangi þegar að ég sá að hann var að hringja á þessum tíma. Þetta er sannleikurinn. Viljið þið sjá símtalaskránna mína?“ segir Jason Kidd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×