Sport

Grindvíkingar stórhuga og þurfa engin lán

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Róbert Ragnarsson bæjarstjóri.
Róbert Ragnarsson bæjarstjóri.
Grindvíkingar reikna með að verja milljarði króna í uppbyggingu á íþróttasvæði bæjarins á næstu fjórum árum. Verkið er á leið í útboð en sveitafélagið þarf ekki að taka lán til að fjármagna framkvæmdirnar.

„Við eigum peninga. Við skuldum eiginlega ekki neitt og við höfum lagað til í rekstrinum síðustu tvö til þrjú ár. Reksturinn er kominn í mjög fínt form," segir Róbert Ragnarsson bæjarstjóri Grindavíkur. Nýja mannvirkið á að sameina íþróttahúsið, sundlaugina og íþróttasvæði utanhúss.

„Þetta verður eitt hjarta," segir Róbert en auk þess verður félagsaðstaða fyrir allar deildir íþróttafélagsins, kvenfélagið í bænum auk þess sem þar verður samskomusalur.

Stór breyting verður gerð á íþróttasalnum sem verður lengdur um 67 prósent. Salurinn uppfyllir reglugerðir fyrir körfuboltavöll en ekki handboltavöll.

„Öryggissvæðið fyrir aftan körfurnar er í algjöru lágmarki. Svo þegar við erum að fá upp í þúsund áhorfendur á leiki eins og tilfellið er þessa dagana er þröngt á þingi. Við gerum ráð fyrir að vera alltaf í þeirri stöðu," segir Róbert. Körfuknattleikslið Grindavíkur tryggði sér einmitt sæti í úrslitum á Íslandsmóti karla í gærkvöldi en liðið er ríkjandi Íslands- og bikarmeistari.



Grindvíkingar hugsa enn lengra en til 2016. Framkvæmdirnar sem má sjá í myndbandinu hér að ofan eru bara fyrsti áfangi. Þegar þeim verður lokið árið 2016 er sundlaug innanhúss á dagskrá og þar á eftir fjölnota íþróttahús. Ólíkt öðrum sveitafélögum er reksturinn í blóma í Grindavík.

„Ég held að það séu varla margir í þessari stöðu. Við seldum hluta okkar í Hitaveitu Suðurnesja fyrir um sex árum þannig að sveitarfélagið eignaðist sjóð þar," segir Róbert. Þann sjóð hafi Grindvíkingar notað til þess að greiða niður allar skuldir.

„Við vorum í rekstrarvandræðum eins og flestallir aðrir en höfum náð að taka til í rekstrinum."

Grindvíkingar fögnuðu í Vesturbænum í gær.Mynd/Daníel
Róbert segir að kostnaðaráætlun fyrir fyrsta áfanga hljómi upp á 700-800 milljónir króna.

„Ætli þetta endi ekki í milljarði með hækkun á byggingavísitölu og öðrum þáttum," segir Róbert. Bærinn skili um 300 milljónum króna í hagnað árlega. Veltuféð megi nota en auk þess eigi bærinn sjóð sem stendur í 1,4 milljörðum króna í dag. Róbert reiknar með því að taka um 400 milljónir af þessum sjóð fyrir verkefnið.

„Markmið bæjarstjórnar er að eiga á hverjum tíma alltaf milljarð í sjóð."

Það er þó fleira sem spilar inn í hvað góða fjárhagsstöðu Grindavíkur varðar en salan á hlut bæjarins í hitaveitunni.

„Ólíkt öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum hefur ekki verið svo mikið atvinnuleysi hérna. Sjávarútvegurinn hefur gengið vel og sömuleiðis ferðaþjónustan í kringum Bláa lónið. Við höfum ekki orðið fyrir sama tekjumissi og mörg önnur sveitarfélög," segir Róbert.

Grindavík



Fleiri fréttir

Sjá meira


×