Erlent

Grikkir bíða ákvörðunar evruríkjanna um framhald aðstoðar

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, neitar frekari niðurskurði nema fá skuldaniðurfellingar.
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, neitar frekari niðurskurði nema fá skuldaniðurfellingar. vísir/epa
Í dag hittast í Brussel fjármálaráðherrar evruríkjanna til að ræða framhald á fjárhagsaðstoð við Grikkland.

Grikkir þurfa nauðsynlega á því að halda að fá fé í ríkissjóðinn til að geta borgað upp í skuldir, sem nú nema nærri 180 prósentum af þjóðarframleiðslunni.

Alexis Tsipras forsætisráðherra neitar að skera meira niður í ríkisrekstrinum nema einhverju af skuldunum verði aflétt. Christine Lagarde, yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, tekur undir kröfur Grikkja um að þeir fái einhverjar skuldaniðurfellingar. Hún hefur sagt að sjóðurinn geti varla tekið þátt í frekari efnahagsaðstoð við Grikkland nema þeir fái niðurfelldar skuldir.

Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, útilokar hins vegar alfarið alla skuldaeftirgjöf.

Hann stendur fast á því að Grikkir eigi að ráða við vandann ef þeir haldi áfram á þeirri braut niðurskurðar sem þeir hafa verið á undanfarin ár.

„Ef Grikkir gera nauðsynlegar efnahagsumbætur þá lenda þeir ekki í vanda. En ef þeir gera það ekki, þá verða þeir í vanda staddir,“ sagði Schäuble í sjónvarpsviðtali í gær.

Grikkir hafa frá árinu 2010 þrisvar sinnum fengið efnahagsaðstoð frá evruríkjunum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Síðast var það samþykkt í ágúst árið 2015 og hafa þeir fengið hluta þeirrar aðstoðar greiddan.Næsta greiðsla verður í maí fallist þeir á frekari efnahagsumbætur.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×