Innlent

Greindi ranglega frá nafni drengsins og sagði barnsmóðurina látna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maðurinn kom til landsins ásamt ólögráða dreng þann 20. ágúst síðastliðinn en hann sagðist vera á ferðalagi með syni sínum. Ekki reyndist unnt að ræða við drenginn við komuna til landsins vegna tungumálaörðugleika.
Maðurinn kom til landsins ásamt ólögráða dreng þann 20. ágúst síðastliðinn en hann sagðist vera á ferðalagi með syni sínum. Ekki reyndist unnt að ræða við drenginn við komuna til landsins vegna tungumálaörðugleika. Vísir/Andri Marinó
Karlmaður frá Serbíu hefur verið úrskurðaður í farbann til föstudagsins 30. október. Hann kom til landsins ásamt ólögráða dreng þann 20. ágúst síðastliðinn en hann sagðist vera á ferðalagi með syni sínum. Ekki reyndist unnt að ræða við drenginn við komuna til landsins vegna tungumálaörðugleika.

Maðurinn framvísaði skilríkjum fyrir báða tvo við komuna til landsins en eftir rannsókn lögreglu viðurkenndi maðurinn að skilríkin væru fölsuð. Við leit í farangri fannst fæðingarvottorð drengsins auk skjals sem virtist benda til þess að maðurinn hefði leyfi frá foreldrum til að ferðast með drenginn.



Lögreglan leitaði til alþjóðalögreglunnar Interpol við rannsókn málsins.Vísir/EPA
Lögreglustjóri telur engan vafa á því að maðurinn sé ekki faðir drengsins

Lögreglan sendi fyrirspurn til alþjóðalögreglunnar Interpol og fékk upplýsingar um rétt nafn mannsins og sömuleiðis að drengurinn væri skráður sem horfinn aðili af fjölskyldu sinni. Væri maðurinn grunaður um að hafa numið drenginn á brott. Svari Interpol fylgdu ljósmyndir af drengnum sem tilkynnt væri að hefði horfið og þeim aðila sem talinn var hafa numið hann á brott. Rannsókn skilríkjasérfræðinga lögreglu staðfesti að um sömu aðila væri að ræða.

Við yfirheyrslur hélt maðurinn því meðal annars fram að hann væri faðir drengsins og hefði fulla heimild til að ferðast með hann. Lögregla metur þó sem svo að skýrslur hans séu ótrúverðugar. Hafi hann þurft að leiðrétta sig varðandi nafn meintrar barnsmóður. Í fyrstu hefði hann greint frá því að hún væri látin en svo dregið það til baka.

Þá er alls óljóst hve lengi maðurinn hefur þekkt fjölskyldu drengsins. Móðirin hafi sjálf greint frá því að fjölskyldan hafi ekki kynnst honum fyrr en árið 2013. Drengurinn sagði manninn ekki föður sinn og hann hefði fyrst hitt hann árið 2013.  Kærði segist hins vegar hafa umgengist drenginn frá unga aldri. Lögreglustjóri telur engan vafa á að maðurinn sé ekki faðir drengsins.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms um farbannVísir/GVA
Greindi vísvitandi ranglega frá nafni drengsins

Lögreglustjóri telur einnig að skýringar kærða á komu hans hingað til lands séu ótrúverðugar. Kærði hafi borið að hann væri hingað kominn til að hitta vin sinn og fyrrverandi nágranna sem væri íslenskur ríkisborgari. Hann vissi ekki hvernig hann ætti að komast í samband við hann hér á landi enda hafði hann hvorki símanúmer né heimilisfang. Við eftirgrennslan lögreglu í þjóðskrá hafi komið í ljós að enginn hér á landi sé skráður með þessu nafni.

Maðurinn greindi vísvitandi ranglega frá nafni drengsins en skipt um skoðun er lögregla hafi borið annað nafn undir hann. Telur lögregla ljóst að kærði hafi hvað eftir annað gefið lögreglu vísvitandi rangar upplýsingar um atvik málsins, sjálfan sig og drenginn sem með var honum í för. Var maðurinn úrskurðaður í gæsluvarðhald þann 22. ágúst til 4. september og í framhaldinu í áframhaldandi gæsluvarðhald til 2. október.

Ákæra gefin út eftir helgi - Grunaður um að hafa nýtt falsað skjal

Rannsókn málsins er lokið og er reiknað með því að gefin verði út ákæra í málinu eftir helgi. Maðurinn er grunaður um að hafa notað falsað skjal en refsing við því varðar allt að átta ára fangelsi. 

Af hálfu lögreglustjóra er til þess vísað að svo virðist sem kærði hafi engin tengsl við land og þjóð. Hann stundi hvorki atvinnu hér né eigi hér fjölskyldu eða vini. Af þeim sökum telji lögregla hættu á að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar gangi hann laus meðan mál hans er til meðferðar hjá lögreglu.

Héraðsdómur hafnaði kröfu um gæsluvarðhald þar sem maðurinn er ekki lengur grunaður um alvarleg brot gagnvart drengnum. Honum er hins vegar bönnuð brottför af landinu til 30. október.

Dóm Hæstaréttar má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×