Lífið

Grafískur hönnuður hannar eigin fatalínu

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Segir fatnaðinn líka geta gengið fyrir stelpur.
Segir fatnaðinn líka geta gengið fyrir stelpur. VÍSIR/ERNIR
Þorbjörn Einar Guðmundsson hefur komið mörgu í verk þrátt fyrir að vera aðeins 25 ára gamall.

Hann er grafískur hönnuður að mennt, er myndlistarmaður og er þessa dagana á fullu við það að koma sinni eigin fatalínu á laggirnar. Fatamerkið mun heita Ulfr og bjóða upp á götutískufatnað fyrir herra.

„Ég er að hanna götutískufatnað undir nafninu Ulfr. Þetta verða húfur, peysur, buxur, bolir og plötur fyrir hjólabretti. Núna er ég að vinna í að koma mér upp saumastofu ásamt því að sinna myndunum og öðru dóti sem ég er að gera,“ segir Þorbjörn sem stefnir á að selja fötin á netinu.

„Vonandi kem ég einhverju upp fyrir jólin annars verður það bara á næsta ári sem öll línan mun líta dagsins ljós.“

Fyrst um sinn mun Þorbjörn einbeita sér að því að hanna fyrir herra. „En stelpur munu alveg geta notað margt af þessu. Þetta er bara stílað inn á stráka til að byrja með.“

„Það hefur verið draumur lengi að hanna mína eigin línu. Ég hef alltaf verið að gera einhver föt líka meðfram hinu. En það hefur þá verið fyrir önnur fyrirtæki. Svo hef ég verið að taka þátt í keppnum og sauma á sjálfan mig. Ég lærði aðeins í fatahönnun en kláraði það ekki, er menntaður grafískur hönnuður og starfa við það.“

Þorbjörn hefur haldið myndlistarsýningar í New York, Barcelona, París, Danmörku og Reykjavík. Þar hefur hann sýnt eigin myndlist og skúlptúra sem unnir voru í samstarfi við bróður hans, glerlistamanninn Lárus Guðmundsson.

Auk þess hefur hann einnig látið til sín taka í tónlistinni. Ég var í hljómsveitinni Úlfur Úlfur og gerði með þeim fyrstu plötuna. Núna er ég að semja tónlist fyrir Hreinan Skjöld með Steinda og Bent."

Þorbjörn selur myndirnar sínar undir vörumerkinu KVRL design. En myndirnar hafa átt talsverðri velgengni að fagna og eru meðal annars í sölu í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi.

„Ég er mjög hrifin af geometrískum formum. Áferðin í myndunum er tekin úr málverkum og myndum sem ég hef verið að mála. Myndirnar og formin eru handteiknuð fyrst, þetta er því mitt á milli þess að vera handgert og stafrænt.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×