Körfubolti

Golden State vann Memphis auðveldlega og komst í 1-0

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Golden State Warriors vann auðveldan sigur á Memphis Grizzlies, 101-86, í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Vesturdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt.

Golden State skoraði 32 stig í fyrsta leikhluta sem það vann með sjö stigum og leit aldrei um öxl. Gestirnir frá Memphis voru númeri of litlir í nótt.

Stephen Curry fór fyrir sínum mönnum, en hann skoraði 22 stig, gaf sjö stoðsendingar og stal fjórum boltum. Það helsta með honum má sjá í spilaranum hér að ofan.

Klay Thompson bætti við 18 stigum fyrir heimamenn auk þess sem hann gaf sex stoðsendingar.

Hjá Memphis voru stóru mennirnir undir körfunni allt í öllu. Marc Gasol skoraði 21 stig og tók níu fráköst, en Zach Randolph skoraði 20 stig og tók einnig níu fráköst.

Eins og svo oft áður var þriggja stiga nýting Golden State til mikillar fyrirmyndar, en liðið skaut 46,4 prósent fyrir utan línuna.

Stephen Curry setti niður fjóra þrista úr átta skotum og það sama gerði Draymond Green. Memphis hélt sig inn í teig, en það hitti aðeins úr 25 prósent þriggja stiga skota sinna.

Glæsileg sending Currys:
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×