Körfubolti

Golden State í kjörstöðu | Myndbönd

Anton Ingi Leifsson skrifar
Strákarnir í Golden State voru í stuði í nótt.
Strákarnir í Golden State voru í stuði í nótt. vísir/getty
Golden State Warriors er einum sigri frá því að verða NBA-meistari í körfubolta eftir sigur á Cleveland Cavaliers, 108-97, í fjórða leik liðanna í úrslitaeinvígi NBA í nótt.

Cleveland var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik þrátt fyrir að meistararnir frá því í fyrra, Golden State, hafi byrjað betur og leitt 29-28 eftir fyrsta leikhlutann. Öflugur annar leikhluti sá til þess að Cleveland leiddi í hálfleik 40-45.

Í þriðja leikhlutanum reyndust Golden State sterkari. Þeir náðu aftur forystunni, en þeir leiddu með tveimur stigum þegar lokaleikhlutinn var flautaður á.

Golden State breytti í stöðunni úr 81-81 í 93-84 og lögðu þannig grunninn að sigrinum, en að lokum varð munurinn ellefu stig, 108-97. Heimamenn í Cleveland náðu lítið að ógna Golden State undir lokin.

Stephen Curry lék á alls oddi, en hann skoraði samtals 38 stig og Klay Thompson bætti við 25. Næstur kom Draymond Green með tólf stig, en Andre Iguodala gaf sjö stoðsendingar í liði meistaranna.

Kyrie Irving skoraði 34 stig fyrir heimamenn í Cleveland, en LeBron James tók þrettán fráköst og gaf níu stoðsendingar. Hann skoraði 25 stig.

Golden State getur tryggt sér titilinn á mánudag, en leikurinn verður að sjálfsögðu í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport/HD.

Topp 5-næturinnar: Fallegt: Curry og Irving voru í banastuði í nótt:
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×