Lífið

Góður fílingur í arabatónlist

Baldvin Þormóðsson skrifar
Katla byrjaði með þemakvöld á þriðjudögum á gamla Bakkusi.
Katla byrjaði með þemakvöld á þriðjudögum á gamla Bakkusi. mynd/aðsend
„Ég var búin að pæla í þessu svolítið lengi út af því að ég fíla arabíska tónlist,“ segir plötusnúðurinn Katla Ásgeirsdóttir en hún þeytir skífum á arabísku Hús Djús-kvöldi á Kaffibarnum í kvöld þar sem hún mun spila mikið af arabískri tónlist.

„Ég ætla samt að svindla og spila líka folk og teknó og reyna að byggja þetta skemmtilega upp,“ segir plötusnúðurinn.

„Það er svo góður fílingur í þessari tónlist, mig langaði til þess að taka svolítið mikla folk-tónlist og blanda inn einhverjum house-töktum.“

Katla er ekki óvanur plötusnúður en hún hefur spilað mikið á Kaffibarnum, Boston, Paloma, Húrra og Bravó en hún byrjaði hins vegar bara að þeyta skífum fyrir þremur árum.

„Ég var með svona þemakvöld á þriðjudögum á Bakkusi,“ segir Katla en henni var eiginlega ýtt út í iðjuna af yfirmanni sínum.

„Við unnum alltaf saman á barnum á þriðjudögum og það var aldrei neitt að gera og þá kom þessi þemakvöldshugmynd,“ útskýrir Katla. „Fyrsta kvöldið var sænskt þemakvöld, þá gerði ég bara sænskan playlista og við mættum bæði í sænskum fötum en síðan ýtti hann mér bara upp í Dj-búrið,“ segir Katla sem hefur meira og minna verið þar síðan.

„Þessi vinnutími er samt hræðilegur fyrir konu sem á árrisulan lítinn dreng, eins og mig,“ segir plötusnúðurinn en tónlistarveislan hefst klukkan 21 á Kaffibarnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×