Skoðun

Góðar undirtektir

Björn Karlsson skrifar
Mannvirkjastofnun og umhverfisráðuneytið hafa að undanförnu staðið að umfangsmikilli kynningu á nýrri byggingarreglugerð. Þótt komið hafi fram athugasemdir við einstök atriði reglugerðarinnar er óhætt að segja að almennt hafi hún fengið góðar og jákvæðar undirtektir, enda var leitast við að vanda til smíði hennar í hvívetna. Samráð var haft við fjölda fólks með sérþekkingu á ýmsum sviðum og ólíka hagsmuni.

Í febrúar 2010 skipaði umhverfisráðherra nefnd til að endurskoða byggingarreglugerð með hliðsjón af fyrirhuguðum lögum um mannvirki, sem tóku gildi í ársbyrjun 2011. Við endurskoðunina skyldi áhersla lögð á að hafa sjálfbæra þróun, opna stjórnsýslu, gagnsæi og lýðræðisumbætur að leiðarljósi. Áhersla var lögð á aukna notkun markmiðsákvæða og byggingarstaðla í reglugerðinni. Sérstaklega var hugað að neytendavernd, vistvænni byggð, hljóðvist í skólum, byggingum ætluðum börnum og aðgengismálum fatlaðra. Einnig var nefndinni gert að hafa mikið samráð við ýmsa hagsmunaaðila.

Nefndin lauk verkefni sínu síðla árs 2011 og umhverfisráðherra staðfesti reglugerðina 24. janúar síðastliðinn. Var þá talsvert fjallað um hana í fjölmiðlum enda eru í henni fjölmörg nýmæli sem eru til þess fallin að auka gæði og öryggi mannvirkja. Reglugerðin er sérlega yfirgripsmikil og tekur til fjölda atriða sem snerta daglegt líf og aðbúnað almennings.

Mikið fjölmenni var á kynningarfundi sem Mannvirkjastofnun efndi til í Reykjavík 10. febrúar. Síðan hafa sambærilegir fundir verið haldnir á Akureyri, í Borgarnesi, Reykjanesbæ, á Hvolsvelli, Egilsstöðum og Ísafirði. Fundirnir hafa hvarvetna verið afar vel sóttir. Þar hafa þeir sem starfa við hönnun og gerð mannvirkja fengið ítarlega kynningu á reglugerðinni og tækifæri til að tjá sig um hana. Fundarmenn hafa með örfáum undantekningum lýst ánægju með reglugerðina.

Margvíslegar upplýsingar um reglugerðina er að finna á mvs.is. Nú þegar fundaherferðinni er lokið munu Iðan fræðslusetur og fleiri bjóða upp á fræðslufundi fyrir iðnaðarmenn. Kynningarstarfið heldur því áfram.

Geysileg verðmæti liggja í mannvirkjum hins opinbera, fyrirtækja og einstaklinga. Því er áríðandi að lög og reglugerðir um þau miði að því að tryggja sem best gæði þeirra, öryggi og hagkvæmni. Það er sannfæring greinarhöfundar að ný byggingarreglugerð gæti þessara hagsmuna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×