Viðskipti erlent

Gluggalausar en tæknivæddar flugvélar framtíðarinnar

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hægt væri að fylgjast með útsýninu á rauntíma.
Hægt væri að fylgjast með útsýninu á rauntíma. Mynd/CPI/Youtube
Í framtíðinni gætu flugvélar orðið gluggalausar, og veggirnir útbúnir með sérstökum tölvubúnaði þannig að hægt verði að sjá útsýnið á alla kanta.

Fyrirtækið Centre for Process Innovation (CPI) sérhæfir sig í nýsköpun; vinnur með fyrirtækjum að þróa hugmyndir sem koma sér vel til framtíðar. Fyrirtækið hefur nú birt myndband af flugvélum framtíðarinnar. Með því að taka í burtu þykka glugga flugvélanna eins og við þekkjum þær nú á dögum væri hægt að spara bensín, styrkja vélarnar, stækka sætin og með hjálp tölvutækninnar njóta útsýnisins úr fluginu sem aldrei fyrr.

Með sérstökum tölvubúnaði væri hægt að varpa myndum á veggi flugvélarinnar og þannig fylgjast með hvað væri að gerast utandyra á rauntíma.

Dr. Jon Helliwell, talsmaður CPI, bendir á að fraktflugvélar séu gluggalausar því það spari eldsneytiskostnað. „Og ef maður hugsar málið, þá sér maður að ef þetta yrði gert í farþegafluginu myndu í raun bara farþegarnir í gluggasætunum finna fyrir því ef gluggarnir væru fjarlægðir." En til þess að allir geti notið útsýnisins sé hægt að vinna með nýjustu tækni. Helliwell telur að hugmyndin taki tíu ár í þróun.

Talið er að gífurlegur sparnaður á eldsneyti fylgi þessum breytingum á flugvélum, auk þess sem flugið ætti að verða mun eftirminnilegra, eins og sjá má í myndbandinu hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×