Innlent

Glannalegur akstur á rafmagnsvespum

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Stranglega bannað er að reiða á hjólunum þrátt fyrir að sæti sé fyrir farþega, því þá verða hjólin þung og erfiðara er að hafa stjórn á þeim.
Stranglega bannað er að reiða á hjólunum þrátt fyrir að sæti sé fyrir farþega, því þá verða hjólin þung og erfiðara er að hafa stjórn á þeim. vísir/anton brink
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur miklar áhyggjur af ungmennum á rafmagnsvespum, ekki síst í ljósi slyss sem varð í vesturbæ Reykjavíkur nýlega. Þá tvímenntu tvær 13 ára stúlkur á rafmagnsvespu og keyrðu á 6 ára gamlan dreng sem var að ganga yfir gangbraut. Engan sakaði alvarlega en stúlkurnar voru ekki með hjálm og mildi var að ekki fór verr.

„Það er ekki bara lögreglan sem hefur áhyggjur, heldur borgararnir líka,“ segir Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, kynningarfulltrúi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. „Við höfum fengið ábendingar og kvartanir því margir sem eru á rafmagnsvespum fara ekki nógu varlega, nota ekki hjálm og eru fleiri en einn á hjólinu sem er stórhættulegt. Það er mikilvægt að foreldrar fari yfir þessi öryggisatriði með börnunum sínum.“

Gunnar bendir á að lítið heyrist í rafmagnsvespum og því bregði gangandi vegfarendum í brún þegar þeir mæta þeim á göngustígum en óheimilt er að aka vespunum á akbrautum þar sem þær komast ekki hraðar en 25 km/klst.

Þórhildur elín elínardóttir
Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu, segir að vegna þessa sé lögð mikil ábyrgð á ökumenn en samkvæmt umferðarlögum eru rafmagnsvespur ekki skráð ökutæki heldur skilgreind sem reiðhjól. Þar af leiðandi séu engar sérstakar kröfur eða skilyrði sett um hæfni og aldur ökumanna. En það gæti breyst bráðlega þar sem frumvarp til laga liggur fyrir Alþingi. Þar er mælst til þess að hjólin séu gerð að léttu bifhjóli í flokki I. 

„Þeim kemur til með að mega aka á akbraut þar sem hámarkshraði er undir 50 km/klst. Gangi breytingarnar fram eins og þær voru lagðar til verða þessi hjól jafnframt skráningarskyld og vátryggingaskyld en þó verða þau undanskilin skoðunarskyldu. Þá mun þurfa ökuréttindi til að aka þeim, þ.e. skellinöðrupróf, sem miðast við 15 ára aldur, eða almennt bílpróf.“

Leiðbeiningar frá Umferðarstofu: 

1. Ekki er mælt með því að börn yngri en 13 ára séu á rafmagnsvespum.

2. Sýna skal gangandi vegfarendum tillitssemi og víkja fyrir þeim.

3. Rafmagnsvespur eru hljóðlausar og því skal nota hljóðmerki til að vara aðra við.

4. Bannað er að reiða á þessum hjólum.

5. Nauðsynlegt er að nota hlífðarhjálm og æskilegt að vera með viðbótarhlífðarbúnað af öðrum toga.

6. Hjólin geta komist á töluverða ferð og því getur skapast meiri hætta ef ökumaður missir vald á þeim. Þau eru líka þyngri en venjuleg reiðhjól og því stærri kraftar að verki ef óhapp á sér stað.

7. Huga þarf að tryggingarmálum. Hvaða og hvort tryggingar nái yfir slys eða tjón sem notkun hjólanna getur valdið.

8. Hjólin eru ekki leiktæki og viss hætta getur fylgt þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×