Innlent

Gjaldþrotum fjölgaði um 50 prósent

Linda Blöndal skrifar
Gjaldþrotum einstaklinga hefur fjölgað um nærri fimmtíu prósent á milli ára. Svanborg Sigmarsdóttir upplýsingafulltruí Umboðsmanns skuldara segir skýringuna geta verið umræðu um að fyrningarfrestur skulda yrði lengdur á ný. Fyrirtæki sem aðstoðar fólk við gjaldþrotaskipti segir marga skjólstæðinga sína koma frá Umboðsmanni.  



Metfjöldi gjaldþrota

Alls 540 einstaklingar urðu gjaldþrota í fyrra miðað við 369 árið áður og er aukningin um rúmlega 46 prósent. Ekki hafa nærri jafn margir orðið gjaldþrota frá aldamótum og í fyrra en þó hefur hópurinn stækkað jafnt og þétt síðan árið 2009.

Svanborg Sigmarsdóttir sagði í Bylgjufréttum í hádeginu að skýringin væri helst tvenns konar: „Fram eftir ári var ekki ljóst hvort að fyrningarfresturinn yrði áfram tvö ár árið 2015. Síðan varð það ljóst í september í ræðu forsætisráðherra að svo yrði. En fólk kannski af stað samt þar sem það hafði áhyggjur af því að fyrningarfersturinn myndi lengjast". Fyrningarfresturinn snýst um þann tíma sem kröfuhafar geta enn gengið að skuldaranum. Áður gátu kröfur verið „lifandi" í nokkur ár en sá tími var styttur til að koma á móts við illa skuldsett fólk.  



Fleiri farið í gjaldþrot vegna styrkja 

„Hins vegar var það frá í febrúar í fyrra sem hægt var að sækja um fjárhagsaðstoð til að greiða skiptakostnaðinn og það voru um 112 sem fengu þannig greiðslur í fyrra", segir Svanborg. Til að gera farið í gjaldþrotameðferð þarf að greiða opinbert gjald, um 250 þúsund krónur sem margir hafa ekki efni á. Því er búist við að fleiri hafi en ella, vegna styrkjanna, geta valið gjaldþrotaleiðina, segir Svanborg. 



Gjaldþrotaþjónustufyrirtæki gagnrýnd 

Fyritækið gjaldþrotaskipti.is hefur aðstoðað fólk við gjaldþrotaskipti en sætt gagnrýni fyrir að hvetja fólk til að fara þessa leið. Á vefsíðunni er sérstaklega tekið fram að fyrningarfrestur fyrir kröfuhafa að sækja að skuldaranum séu tvö ár en óvissa sé um framhaldið og gagnrýnir Guðmundur Ásgeirsson fulltrúi frá Hasmunasamtökum heimilanna í Fréttablaðinu í dag og segir orðalagið villandi. Fyrirtækið hefur einu sinni að beiðni Neytendastofu þurft að breyta orðalagi sem þótti rangt á síðunni. 

Á erfitt með að gera nýja samninga 

Ólafur Kristinsson, lögmaður er einn þeirra sem heldur úti gjalthrotaskipti.is. Hann segir að um fimmtíu manns hafi leitað til þeirra í fyrra og um þrír fjórðu þeirra hafi áður leitað til umboðsmanns skuldara. „Oft á tíðum er þetta fólk þar sem frestur er runninn út og það á ð fara að borga og þá koma kröfur á fullt með miklum innheimtukostnaði og fleiru. Það á erfitt með að semja við sína kröfuhafa aftur", sagði Ólafur í Bylgjufréttum.  

Vill bara losna úr skuldafeni

Aðspurður hvort fyrirtæki hans hvetti fólk til að fara gjaldþrotaleiðina neitar Ólafur því. „Nei, þetta er síðasta hálmstráið. Fólk kemur og talar við okkur. Við reynum að segja fólki að fara ekki í þetta en ákvörðunin er þeirra. Við erum bara að upplýsa það um hvaða möguleika það hafi. Stundum er þetta eina leiðin til að losna út úr einhverju feni sem þú sérð ekki ljós í lengur", segir Ólafur. „Það eru allir lúpulegir. Það er enginn að leika sér að þessu", segir hann.    

Nokkur hundruð þúsund fyrir að fara í gjaldþrot 

Fyrir gjaldþrotaskipti þarf einstaklingur að greiða 265 þúsund krónur í opinbert gjald og fyrirtæki Ólafs tekur166 þúsund fyrir þjónustuna með virðisauka. Alls getur því gjaldþrotaleiðin kostað mann 430 þúsund krónur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×