Innlent

Gjaldtaka hefst 16. maí

Sæunn Gísladóttir skrifar
Fyrsti gjaldstaurinn var settur upp í gærmorgun.
Fyrsti gjaldstaurinn var settur upp í gærmorgun. Fréttablaðið/Pjetur
Fyrirhugaðri gjaldtöku á bílastæðum í Þingvallaþjóðgarði sem hefjast átti 1. maí verður frestað til 16. maí. Fyrirtækið Bergrisi setti í gærmorgun upp fyrsta gjaldstaurinn af fimm á Hakinu við Þingvallaþjóðgarð. Staurar verða settir upp á fleiri stöðum í þjóðgarðinum.

Samkvæmt gjaldskránni er gjald fyrir hvern einkabíl fimm hundruð krónur. Fyrir hópferðabíla fyrir fimmtán farþega eða fleiri þrjú þúsund krónur.

Fyrir hópferðabíla fyrir fjórtán farþega eða færri eru greiddar 1.500 krónur og fyrir jeppa/hópferðabíla fyrir átta farþega eða færri 750 krónur.

Gjaldið veitir heimild til að leggja bifreið í allt að 24 klukkustundir.

Gert er ráð fyrir að heildartekjur þjóðgarðsins verði um 40 til 50 milljónir króna á ári en þjónustu-, rekstrar- og viðhaldskostnaður bílastæðanna er um 50 milljónir króna á ári.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 7. maí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×