Innlent

Gestum í Gistiskýlinu fækki

snærós sindradóttir skrifar
Gistiskýlið gefur ekki mikið pláss fyrir næði. Rúmdýnurnar eru gjöf frá Minningarsjóði Lofts Gunnarssonar útigangsmanns.
Gistiskýlið gefur ekki mikið pláss fyrir næði. Rúmdýnurnar eru gjöf frá Minningarsjóði Lofts Gunnarssonar útigangsmanns. Fréttablaðið/Anton Brink
Fyrirhugað er að stokka upp þjónustu Reykjavíkurborgar við útigangsfólk. Hugmyndin er að fækka þeim sem sækja í Gistiskýlið á hverri nóttu og koma fólki frekar í varanlegt húsnæði. Fréttablaðið greindi frá því á föstudag að helmingur þeirra sem nota skýlið væru karlmenn frá Austur-Evrópu.

Reykjavíkurborg tók við gistiskýlinu að Lindargötu í júní síðastliðnum. Áður hafði það verið rekið af Samhjálp og var til langs tíma í húsnæði við Þingholtsstræti. Við flutning úrræðisins á Lindargötu fjölgaði gistirýmum um tíu. „Þá héldu menn að þeir væru búnir að leysa vanda utangarðsmanna,“ segir Allan Morthens, forstöðumaður Gistiskýlisins.

Allan Morthens, forstöðumaður Gistiskýlisins
Raunin varð önnur og í sumar hefur þurft að vísa mönnum frá þegar fullt er. Í húsinu eru 25 rúm og fjórar dýnur til að grípa til í neyð. Karlarnir sem leita í Gistiskýlið eru allt frá tvítugsaldri og upp í áttræðisaldur. Sumir þeirra hafa gist meira og minna í skýlinu í aldarfjórðung. „Þeim hefur stundum verið boðið annað húsnæði en það tekur of mikinn pening. Þetta eru öryrkjar með 150 til 200 þúsund krónur á mánuði. Þeir vilja ekki eyða peningum í húsnæði. Þeir eru í neyslu,“ segir Allan.

Í skýlinu er eitt pínulítið einstaklingsherbergi sem hugsað er fyrir unga stráka eða ef þangað leitar fólk sem er edrú. Þá er þar líka herbergi búið nokkrum rúmum sem tekur á móti allra veikustu mönnunum. Allan lýsir því að þangað komi stundum menn sem þurfi að rúlla inn í hjólastólum sökum ölvunar. „Hér skíta menn á sig og æla og fá krampa.“ Sjúkrabílar og lögregla eru tíðir gestir í skýlinu.

Á annarri hæð hússins er herbergi sem kallast í daglegu tali Pólska svítan. Þar eru níu rúm svo gott sem frátekin fyrir hóp manna frá Austur-Evrópu sem gistir reglulega í Gistiskýlinu. Fréttablaðið greindi frá því fyrir helgi að Reykjavíkurborg væri nú að reyna að kortleggja vanda þessa hóps. Mennirnir tala ekki íslensku og litla ensku. Þess vegna hefur þeim reynst erfitt að nota úrræði sem þeim standa til boða í húsnæðismálum og meðferð við vímuefnavandanum. „Þeir eru bara allslausir og kjósa að vera hér því hér fá þeir allavega að borða og sofa.“

Í húsinu er rúmum komið fyrir hverju upp við annað. „Það verður að stappa inn. Þetta er auðvitað ekki boðlegt. Vonandi verður framhaldið þannig að við getum losað um þetta þannig að það geti verið meiri reisn yfir þessu,“ segir Allan.

Um fimmtíu manns eru í alvarlegustu stöðunni í Reykjavík, að sögn Ilmar Kristjánsdóttur, formanns velferðarráðs. Hluti af þeim er kannski um tíu manna hópur erlendra aðila. Nú hefur svokallað útigangsteymi á vegum Reykjavíkurborgar smíðað nýtt verklag fyrir utangarðsfólk. Teymið samanstendur af félagsráðgjöfum, borgarvörðum, kjörnum fulltrúum og öðru starfsfólki sem sinnir þjónustu við útigangsfólk. „Það sem hefur verið til umræðu er að það sé ákveðin ofþjónusta við veikasta hópinn á versta staðnum og kannski ekki nógu mikil hvatning til að komast upp úr þessum erfiða stað,“ segir Ilmur.

Hún segir að hugmyndir teymisins byggi á því að fólk þurfi svokallaða tilvísun til að gista í Gistiskýlinu. „Þegar þú færð tilvísunina færð þú kannski viku á meðan það er verið að vinna úr málinu þínu. Þegar þú ert búinn að gera áætlun með þínum félagsráðgjafa færðu eitthvert fast rými, líka í Gistiskýlinu.“

„Svo þegar þú ert búinn að ná einhverri áætlun færðu kannski sérherbergi og þegar þú ert búinn að vera í því í einhvern tíma og ná árangri færðu úthlutað íbúð. Þannig á þetta að virka.“

Ilmur segir að nú sé lausnin að úthluta íbúðum til fólks sem vegna fíknar sinnar og geðrænna kvilla ráði ekki við að halda heimili.

Aðspurð hvort til greina komi að húsnæðið sem fólk fái úthlutað verði gjaldfrjálst, í ljósi þess að sumir vilji frekar eyða örorkubótum í neyslu en húsnæði, segir Ilmur að það sé ekki inni í myndinni. „Ef þú færð frítt húsnæði og bætur þá getur þú bara eytt bótunum þínum í neyslu en það þarf að vera „tough love“. Það er verið að tala um það núna í velferðarkerfinu í Svíþjóð að það þurfi að vera hvati. Þú þarft að sýna árangur til að fá umbun. Mér finnst í rauninni koma til greina að rukka fyrir Gistiskýlið þegar þú ert búinn að vera í ákveðinn tíma og það er búið að gera ákveðna áætlun með þér sem þú stendur ekki við.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×