Lífið

Gestir í afmæli Siggu Kling graðir í lífið

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
„Það voru allir svo tryllt glaðir og graðir í lífið,“ segir Sigríður Klingenberg sem hélt upp á afmælið sitt með „Gay for a day“ eða Glaður í dag veislu eins og hún kallar hana. Í afmælið mættu hátt í þrjúhundruð manns en það var haldið síðastliðna helgi í Sveitakránni í skemmtigarðinum Gufunesi. Sigga Kling, eins og hún er jafnan kölluð, bauð upp á súpu frá Kryddlegnum hjörtum.

„Hún var sérblessuð því að þú verður að borða jákvætt,“ segir hún og hlær.

Sigga á listræna vini sem sést best á því að þrátt fyrir að hún hafi aðeins undirbúið að hafa plötusnúð sem leika myndi fyrir tónlist tróðu sex einstaklingar upp í partýinu.

„Kofinn bara dansaði. Elísabet Ormslev söng og Ísold Vilberg. Og Geir Ólafsson og Bjarni töframaður. Hún Bryndís Ásmunds söng þakið af húsinu. Hún söng sig inn í líkama fólks, það grét hún var svo góð.“ Söngkonan Þórunn Antonía tróð einnig upp í afmælinu en hún mætti klædd í hvíta gallann sem varð þekktur eftir að hún klæddist honum í tónlistarmyndbandi við lagið Too late.

„Þetta var kombakk hjá henni af því að hún eignaðist barn. Og mittið á henni er ein spönn,“ segir Sigga. „Maður er bara í sjokki.“

Hún segir aðdáendur Þórunnar á staðnum hafa ofandað. „Það leið nánast yfir þá.“

Sigga segist hafa haft sérstaka sjötíu sentímetra hárgreiðslu en Hemmi félagi hennar á Motus greiddi henni. Til þess að gera hárið sem eftirtektarverðast var sett tveggja lítra gosflaska á höfuðið á afmælisbarninu og greitt í kring.

Hér að neðan má sjá myndir úr afmælinu og fyrir ofan myndband af fagnaðarlátunum sem brutust út þegar Bryndís Ásmunds tók Tinu Turner.

Fólk mætti klætt í búninga.Vísir/Bent
Sigga lék á als oddi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×