Erlent

Gervigreindin mun ekki útrýma mannkyninu segir stjórnandi hjá Microsoft

Birgir Olgeirsson skrifar
Stjórnandi hjá Microsoft telur gervigreind ekki eiga eftir að útrýma mannkyninu heldur eigi hún eftir að bæta lífið til muna.
Stjórnandi hjá Microsoft telur gervigreind ekki eiga eftir að útrýma mannkyninu heldur eigi hún eftir að bæta lífið til muna. Getty.
Margir hafa lýst yfir þungum áhyggjum vegna þróunar á gervigreind og telja mannkyninu stafa ógn af því. Þeirra á meðal eru stjarneðlisfræðingurinn Stephen Hawking og Elon Musk forstjóri Tesla.

Stjórnandi rannsóknarsviðs bandaríska tölvurisans Microsoft er hins vegar ekki sammála þessu mati og segir að um fjórðungur af starfsemi rannsóknarsviðs Microsoft fari í þróun á virkni gervigreindar.

„Það hafa verið uppi áhyggjur af því að við munum missa tökin á nokkrum tegundum af gervigreind. Í grundvallaratriðum tel ég það ekki eiga eftir að gerast,“ segir Eric Horvitz í myndbandi frá Microsoft þar sem hann deilir skoðunum sínum eftir að hafa hlotið AAAI Feigenbaum-verðlaunin fyrir framlag sitt til þróunar á gervigreind.

„Ég tel okkur eiga eftir að beita fyrirbyggjandi aðferðum við þróun gervigreindar og það verði mikið gagn af af slíkum kerfum á öllum sviðum, allt frá vísindum, menntun, viðskiptum og daglegu lífi.“

Gervigreindin forgangsmál tæknirisa

Horvitz fer fyrir rúmlega eitt þúsund manna teymi af vísindamönnum og verkfræðingum innan Microsoft sem hefur meðal komið fram með Cortana, raddstýrðu aðstoðarforriti sem er að finna í Windows-símanum og verður brátt hægt að nota á tölvum. Hann telur að Cortana og sambærileg forrit hjá samkeppnisaðilum Microsoft muni örva þróun á gervigreind sem verður forgangsmál tæknirisanna. 

„Við höfum Cortana, Siri og Google Now sem berjast um fyrsta sætið og sú keppni á eftir að auka fjárfestingu á þessu sviði og rannsóknir“

Gæta friðhelgi einkalífs

Hann sagði að gæta verði sérstaklega upp á friðhelgi einkalífs þegar kemur að þróun gervigreindar því hún á eftir að geta safnað saman óheyrilegu magni af upplýsingum út frá hegðun mannfólksins.

„Við höfum hins vegar verið að vinna að kerfum sem geta áttað sig á því hvaða upplýsingar þau eiga að nota til að geta veitt notendum bestu þjónustuna en á sama tíma minnkað hættuna á innrás í einkalíf notenda.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×