Lífið

Gerðu 9000 blómvendi bara fyrir konudaginn

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Konudagurinn er í dag og eflaust margir sem ætla að hylla konur með ýmsum hætti í tilefni dagsins. Garðyrkjustöðin Espiflöt framleiddi níu þúsund blómvendi bara fyrir daginn í dag.

Konudagurinn markar upphaf Góu og ber alltaf upp á sunnudag í átjándu viku vetrar. Á árum áður minntust bændur og eiginmenn húsfreyjunnar með því að fagna Góu, en hún færir með sér vaxandi birtu og innganginn að vorinu.

Dagurinn hefur alltaf verið í hávegum hafður og enn þann daginn í dag nýta menn daginn til þess að koma konum í lífi sínu á óvart.

Axel Sæland er framkvæmdastjóri Garðyrkjustöðvarinnar Espiflöt á Selfossi en hann segir konudaginn einn stærsta dag ársins á blómamarkaði.

„Hann er náttúrulega bara gríðarstór dagur og telur alveg ofboðslega inn í ársveltuna hjá fyrirtækinu. Til dæmis fyrir þennan konudag að þá gerðum við tæpa 9000 blómvendi sem við sendum á markaðinn og erum að senda frá okkur yfir 100 þúsund blóm, bara fyrir þennan dag,“ segir Axel.

Höfðar til breiðari markhóps

Hann segir konudaginn miklu stærri dag en Valentínusardaginn sem var í síðustu viku.

„Valentínusardagurinn hefur verið meira unga kynslóðin að koma inn á markaðinn með rómantísku hugsunina sína. Konudagurinn er miklu meiri blómadagur þar sem fjölbreytnin ræður ríkjum og dagurinn er í dag ennþá margfalt stærri. Hann höfðar til miklu stærri hóps Íslendinga.

Axel hvetur karlmenn til þess að koma konum sínum á óvart í tilefni dagsins með fjölbreyttum blómvendi.

„Ég held að konur vilji almennt mikla liti og fjölbreytni í vendina,“ segir Axel Sæland. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×