Sport

Gerði ógilt í tveimur fyrstu köstunum en vann samt gull

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sandra Perkovic.
Sandra Perkovic. Vísir/Getty
Sandra Perkovic frá Króatíu vann í dag kringlukast kvenna á Ólympíuleikunum í Ríó og fékk því gull í þessari grein á öðrum Ólympíuleikunum í röð.

Sandra Perkovic kastaði lengst 69,21 metra eða tveimur og hálfum metra en næsta kona. Perkovic fékk silfur á HM í fyrra en hún er ósigruð í kringlukastinu á árinu 2016.

Sandra Perkovic byrjaði þó ekki vel í úrslitunum því hún gerði ógilt í tveimur fyrstu köstunum sínum. Það þýddi að allt var undir í þriðja kasti en þar náði hún að kasta 69,21 metra sem síðan dugði henni á endanum til sigurs.

Þetta var í raun eina gilda kastið hennar Perkovic í úrslitunum því hún gerði einnig ógilt í síðustu þremur köstum sínum í keppninni. Aðeins átta efstu eftir þrjú köst fengu að kasta þrisvar sinnum til viðbótar.

Sandra Perkovic vann gullið á Ólympíuleikunum í London 2012 en hún kastaði þá lengst 69,11 metra sem var þá króatískt met. Perkovic hefur bætt það met síðan þá.

Hin franska Melina Robert-Michon tryggði sér silfurverðlaunin í dag með því að setja nýtt franskt met en hún kastaði 66,73 metra.

Robert-Michon varð í fimmta sæti á leikunum í London fyrir fjórum árum en hún er 37 ára og með því að vinna silfrið varð hún elsti franska verðlaunahafinn í frjálsum í sögu Ólympíuleikanna.

Denia Caballero, heimsmeistarinn frá Kúbu síðan í Peking 2015, kastaði 65,34 metra og fékk bronsið. Kúba hefur nú eignast verðlaunahafa í kringlukasti kvenna á þremur leikum í röð.

Vísir/Getty
Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×