Viðskipti innlent

Geir H. Haarde neitar að bera vitni

Valur Grettisson skrifar
Geir H. Haarde.
Geir H. Haarde.

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, neitaði að bera vitni í skaðabótamáli hlutdeildarskírteinishafa í peningarmarkaðssjóðum gegn Ríkissjóði Íslands en aðalmeðferð málsins fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Lögmaður Geirs sendi Héraðsdómi Reykjavíkur bréf fyrir helgi þar sem dómnum var tilkynnt þetta. Ástæðan fyrir því að Geir vildi ekki bera vitni var ótti við það að hann gæti bakað sér sjálfum refsiábyrgð vegna framburðar síns. En Geir hefur verið stefnt fyrir Landsdóm.

Geir var kallaður til vitnis vegna þess að hlutdeildarskírteinishafar vilja meina að í yfirlýsingu Geirs í hruninu 2008, þar sem hann tilkynnti að innistæður Íslendinga væru tryggðar að fullu, hefðu vakið lögmætar vonir um að hið sama ætti við með peningamarkaðssjóðina.

Þessu neitar lögmaður Ríkissjóðs Íslands en hann vill meina að það sé fyllilega skýrt að ekki hefði verið átt við peningamarkaðssjóði í ræðu Geirs.

Þá vill lögmaður Ríkissjóðs meina að málið sé vanreifað. Til að mynda sé enginn greinamunur gerður á starfsemi Landsvaka, sem var dótturfélag Landsbankans og stjórnaði peningamarkaðssjóðnum, og hinsvegar Landsbankans sjálfs.

Lögmaður hlutdeildarskírteinishafa vildi þá meina að neyðarlögin hefðu ekki tekið formleg gildi fyrr en eftir að Landsbankinn var tekinn yfir haustið 2008. Þessu neitaði lögmaður Ríkissjóðs og tók fram að lögin hefðu tekið gildi 7. október 2008 en ekki á miðnætti 8. október eins og lögmaður hlutdeildarskírteinishafa hélt fram.

Þá benti lögmaður Ríkissjóðs á að ef neyðarlögin hefðu ekki tekið gildi á sínum tíma, með tilheyrandi kerfishruni, þá hefðu hlutdeildarskírteinishafar fengið mun minna til baka úr peningamarkaðssjóðunum en alls endurheimtu þeir 68.8 prósent.

Lögmaður hlutdeildarskírteinishafa sagði bankanum óheimilt að mismuna skjólstæðingum sínum. Benti hann á Icesave málið og bætti við að ef þær skuldbindingar yrðu greiddar, á þeim forsendum að óheimilt væri að mismuna innistæðueigendum, þá ætti slíkt hið sama við peningamarkaðssjóð Landsvaka.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×