Innlent

Gefa börnunum ofvirknilyf á daginn og svefnlyf á nóttunni

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Ólafur Guðmundsson yfirlæknir á BUGL.
Ólafur Guðmundsson yfirlæknir á BUGL.
Borið hefur á að foreldrar barna með ADHD noti svefnlyf eða geðrofslyf fyrir börn sín vegna svefnvandamála sem stundum má rekja beint til aukaverkana ofvirknilyfja. Landlæknisembættið hefur áhyggjur af ofskömmtun.

Dæmi eru um að foreldrar barna með ofvirkni og athyglisbrest (ADHD) noti geðrofslyf eða önnur svefnlyf til að vega á móti svefnvanda sem er algengur fylgifiskur sjúkdómsins. Oft má þó rekja vandann beint til ofvirknilyfja og aukaverkana þeirra.

„Við höfum áhyggjur af að verið sé að gefa börnum með svefnvanda svefnlyf og erum því að skoða þetta. Við erum líka að sjá notkun geðrofslyfja í sama tilgangi og teljum slíkt geta verið mjög alvarlegt. Slík notkun getur hæglega leitt til ofskömmtunar,“ segir Magnús Jóhannsson læknir, sem hefur eftirlit með lyfjaávísunum hjá Landlækni.

Svefntruflanir eru algengar hjá börnum með ADHD. Þau eru oft óróleg í svefni og hvílast því illa.

Ólafur Guðmundsson, yfirlæknir á barna- og unglingageðdeild (BUGL), segir hefðbundin svefnlyf sjaldan notuð hjá börnum. Þess í stað sé notast við svokölluð andhistamínlyf eða ofnæmislyf með slævandi aukaverkunum eins og til dæmis Phenegan. Það slær á ofnæmisviðbrögð en hefur einnig umtalsverð róandi og svæfandi áhrif og er því oft ávísað sem svefnlyfi. Hann staðfestir aðspurður að einnig sé notast við geðrofslyfin Risperídón og Aríprírpazol.

Geðrofslyfin eru eins og nafnið gefur til kynna notuð við alvarlegu geðrofi hjá fullorðnum. Verkun þeirra er mjög slævandi. Samkvæmt lyfjaskrá eru mögulegar aukaverkanir lyfjanna fjölmargar og langvarandi notkun þeirra getur haft alvarleg áhrif á taugakerfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×