Handbolti

Gef ungu drengjunum tækifæri

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Geir Sveinsson hefur um margt að hugsa.
Geir Sveinsson hefur um margt að hugsa. vísir/anton
Það er mikið að gera hjá landsliðsþjálfaranum Geir Sveinssyni þessa dagana enda hefur undirbúningurinn fyrir HM ekki verið eins og best verður á kosið. Veikindi og meiðsli sem enduðu með því að besti leikmaður liðsins, Aron Pálmarsson, fór heim í gær og spilar ekki á HM.

„Þetta er tvenns konar með Aron. Jákvætt að því leyti að ákveðinni óvissu er nú eytt en það neikvæða að sjálfsögðu að þetta er ekki bara einhver heldur er þetta Aron Pálmarsson. Einn besti handboltamaður heims og við hefðum klárlega viljað njóta krafta hans. Þetta er niðurstaðan og við verðum að keyra á þeim sem enn eru hér,“ segir Geir en hvernig var þetta metið á endanum með Aron?

„Einn punkturinn er að hann æfði með okkur í byrjun janúar og svo aftur hérna í Frakklandi. Æfingin hér úti gekk verr og það sagði margt.“

Eins og áður segir hefur undirbúningurinn ekki verið eins og best verður á kosið en hvernig er það fyrir landsliðsþjálfara að glíma við svona ástand?

„Ég gæti alveg sagt að þetta væri ömurlegt en það þýðir ekkert. Við reiknuðum með Vigni inni og að hann veikist svona er eitthvað sem er ekki hægt að undirbúa sig fyrir. Maður verður bara að taka þessu öllu með ró og reyna að hugsa í lausnum. Vignir er á uppleið og aldrei að vita nema hann komi hingað út.“

Arons Pálmarssonar nýtur ekki við á HM.vísir/ernir
Ef hægt er að tala um eitthvað jákvætt í sorgarsögu Arons þá hefur liðið í það minnsta vitað af þessu allan undirbúninginn og getað æft að spila án hans.

„Sumt af því sem maður lagði upp með í þeim undirbúningi hefur gengið upp og annað ekki. Við vorum að prófa nokkra leikmenn og ákveðna blöndu. Ég held að við séum komnir eins nálægt niðurstöðunni og mögulegt er. Í bakhöndinni var alltaf sá möguleiki að Aron kæmi kannski inn. Við erum engu að síður með menn sem eru að spila í háum gæðaflokki í Evrópu og þurfa nú að stíga upp,“ segir Geir en hvaða væntingar gerir hann til liðsins á þessu heimsmeistaramóti miðað við stöðuna á liðinu í dag?

„Sem þjálfari vil ég sjá liðið bæta sig. Að það sé einhver stígandi í því sem maður er að gera. Fyrstu tveir leikirnir eru gegn mjög sterkum andstæðingum. Við verðum að vera sterkir og hafa trú á því sem við erum að gera. Markmiðið er þetta einfalda að vinna hvern einasta leik sama hvort það er raunhæft eða ekki. Á endanum vill maður komast sem lengst.“

Það eru margir ungir menn með í för að þessu sinni og margir vilja sjá þá spila sem mest. Að þetta mót sé notað til þess að gefa þeim mikið tækifæri og leggja þannig inn fyrir framtíð landsliðsins. Geir skilur það og segist ætla að gera nákvæmlega það.

„Ég held að ég geti svarað því játandi að ég mun gefa þeim mikið tækifæri af því að liðið er á þeim tímamótum sem það stendur á nú. Ef við lítum til baka þá hefur verið ákveðið stress í þessari endurnýjun af því að við þurfum að standa okkur á öllum mótum. Munurinn á EM og HM er sá að útkoman hér hefur ekki áhrif á styrkleikaflokka. Við getum leyft okkur meira á HM en á EM. Við höfum mjög efnilega handboltamenn hérna og af hverju eigum við ekki að leyfa þeim að spila? Ég skil samt forvera mína að þetta hefur ekki verið neitt auðvelt. Svörun ungu mannanna gefur ágætis fyrirheit en þá vantar auðvitað reynslu. Það verður gaman að sjá þá og ég er spenntur,“ sagði Geir en bendir á að það sé mikill munur á æfingaleikjum og HM. Engu að síður hefur hann trú á drengjunum.

„Ég hef mikla trú á þeim. Þetta eru flottir strákar og miklir karakterar. Annars hefði ég aldrei valið þá og ákveðið að henda þeim út í djúpu laugina. Við ætlum að njóta þess að vera hérna og selja okkur dýrt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×