Innlent

Gasmælingar aukast við Heklu

Freyr Bjarnason skrifar
Gasmælirinn frá Veðurstofunni er inni í þessum litla kofa sem var reistur uppi á Heklu.
Gasmælirinn frá Veðurstofunni er inni í þessum litla kofa sem var reistur uppi á Heklu. Mynd/Veðurstofa Íslands
Gasmælingar hafa aukist við Heklu undanfarið eitt og hálft ár. Þær fara þannig fram að gastegundirnar sem stíga upp úr kvikunni eru mældar uppi á fjallinu.

„Kvika í eldfjöllum losar venjulega eitthvað gas og eitt af því sem menn gera þegar eldfjöll eru vöktuð er að mæla gasútstreymi frá eldfjöllum. Það gefur upplýsingar um dýpi og eðli kvikunnar og getur gefið upplýsingar sem skjálftamælar og GPS-mælar gefa ekki,“ segir Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, en stöðug þensla hefur verið umhverfis Heklu síðan mælingar hófust.

Aðspurður segir hann að kerfisbundnar gasmælingar í kringum íslensk eldfjöll hafi lítið sem ekkert verið stundaðar í gegnum árin. „Það er frekar erfitt að mæla gas og nota gasmæla sem vöktunartæki á Íslandi. Það eru ýmis ljón í veginum fyrir því, meðal annars veðurfarsleg, en menn hafa verið að fikra sig í þessa átt.“

Mælitækjum í kringum Heklu hefur fjölgað mjög á undanförnum árum, þar á meðal jarðskjálfta- og GPS-mælum. „Mikilvægasta viðbótin er kannski sú að það er orðið talsvert þétt net af GPS-mælum,“ segir Benedikt, en GPS-stöðvarnar sem vakta Heklu eru tíu talsins. Skjálftamælar í kringum Heklu eru þrír en gasmælirinn einn.

„Við erum búnir að vera viðbúnir Heklugosi í talsvert mörg ár. Þetta endar í gosi, spurningin er hvenær. Það er ekki sjálfgefið að það verði á næstu árum en það er það sem við gerum ráð fyrir og búumst við.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×