Innlent

Gamla þjóðleiðin yfir Elliðaárnar endurvakin í göngu- og hjólastíg

Kristján Már Unnarsson skrifar
Tvær nýjar brýr yfir Elliðaár voru opnaðar í dag, - þó ekki fyrir bílaumferð, - því þær eru hluti af nýrri hjóla- og gönguleið þvert yfir Elliðaárhólma, sem liggur á sama stað og elsta þjóðleiðin til Reykjavíkur. 

Það var skammt neðan Elliðaárstöðvar sem þeir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, klipptu á borðann á nýrri stálbrú. Þeir stigu síðan á bak og renndu af stað á hjólafákum sínum. Þar með var nýja leiðin formlega opnuð en hún kostaði um 85 milljónir króna.

Athygli vekur að stígurinn er tvíbreiður, annar hlutinn verður fyrir hjólreiðamenn og hinn fyrir göngufólk. Að sögn borgarstjóra er þetta liður í þeirri stefnu borgarinnar að skilja að umferð gangandi og hjólandi þar sem umferðin er mest. 

Við undirgöng á móts við Bústaðaveg er risin ný trébrú yfir vestari kvísl Elliðaánna og þar er jafnframt búið að setja upp aðstöðu til hjólaviðgerða, loftpumpu og skiptilykla.

Ilmur Kristjánsdóttir varaborgarfulltrúi og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hjóla á nýja stígnum í veðurblíðunni í Elliðaárhólma í dag.Stöð 2/Sigurjón Ólason.
Nýi stígurinn tengist öðrum stígum, bæði um Elliðarárdal og Fossvogsdal, og brátt bætast fleiri við í nágrenninu, meðfram Stekkjarbakka og Bústaðavegi. Lýsingin meðfram stígnum verður umferðarstýrð, bæði til að spara rafmagn og til að halda ljósmengun í lágmarki.

„Þetta er hluti af smartvæðingu borgarinnar. Það á að kvikna á þeim þegar þú ferð hér um en annars á að vera slökkt,“ segir borgarstjóri. 

Svo skemmtilega vill til að nýi stígurinn er þar sem elsta þjóðleiðin lá um Elliðaárhólma til Reykjavíkur áður en Elliðaárnar voru fyrst brúaðar, að sögn Reynis Vilhjálmssonar, landslagsarkitekts og sérfræðings um sögu Elliðaárdals. Eftir að menn höfðu áð við gamla Árbæ var farið á vaði yfir eystri kvíslina skammt  fyrir neðan þar sem Elliðaárstöð er núna. Vaðið yfir vestari kvíslina var á móts við Bústaðaveg. Leiðin inn í gömlu Reykjavík lá síðan þar sem nú eru Bústaðavegur og Laufásvegur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×