Skoðun

Gagnið af gagnsæinu

Páll Harðarson skrifar
Sennilega stuðlar fátt jafn vel að vernd almannahagsmuna og gagnsæið. Gildir það á flestum sviðum þjóðlífsins. Það er óumdeilt að gagnsæi leiðir til vandaðri starfshátta og aukins jafnræðis, hvort sem aðhald þess beinist að einkaaðilum eða opinberum aðilum. Gagnsæi er hornsteinn verðbréfamarkaðar. Leikreglum verðbréfamarkaðar um gagnsæi er ætlað að gera stöðu allra þátttakenda á verðbréfamarkaði jafna. Það þjónar þeim best sem eiga að öðrum kosti erfiðast með að nálgast upplýsingar. Að baki býr hugmyndin um fjárfestavernd. Fjárfestar, smáir sem stórir, eiga ekki að þurfa að velkjast í vafa um hvort sá sem er á hinum enda viðskiptanna hafi aðgang að öðrum og fyllri upplýsingum, hvorki varðandi fyrirtækið sjálft eða viðskipti á markaði.

Gagnsæið er krefjandi, en það er líka gefandi. Rannsóknir sýna að fjárfestar verðlauna þau fyrirtæki sem eru undir gagnsæiskröfum, vanda sig við upplýsingagjöf og fylgja góðum stjórnarháttum. Þau búa að öðru jöfnu við lægri fjármagnskostnað, oft svo um munar. Stjórnendur fyrirtækja þekkja þetta, ekki síst þeir sem hafa unnið í umhverfi verðbréfamarkaðar. Því ganga sum fyrirtæki enn lengra en lög og reglur og segja til um. Dæmi um þetta er ósk fyrirtækja um að fá stjórnarhætti sína vottaða. Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti hefur boðið upp á slíka vottun í samstarfi við Viðskiptaráð, Samtök atvinnulífsins og Kauphöllina. Hvorki lög né reglur reka fyrirtækin í slíka vottun. Metnaður fyrir vönduðum stjórnarháttum og sterk ásýnd gagnvart fjárfestum og ytra umhverfi eru drifkraftarnir.

Meginstefið í viðbrögðum Evrópusambandsins við fjármálakreppunni hefur verið að færa viðskipti upp á yfirborðið sem áður voru hulin. Langvarandi markaðssvik á mörkuðum sem hafa verið undir takmörkuðu eftirliti, svo sem gjaldeyrismarkaði og millibankamarkaði, hafa einnig vakið yfirvöld til umhugsunar. Stórir alþjóðlegir bankar hafa verið sektaðir um fjárhæðir sem nema á annað þúsund milljarða króna fyrir athæfi sitt á þessum mörkuðum. Sums staðar hafa verið stigin skref til aukins gagnsæis í verðmyndun og eftirlits á millibankamarkaði. Ekki kæmi á óvart að viðbrögðin yrðu á svipaða lund á gjaldeyrismarkaði. Full ástæða er til að fylgjast vel með ákvörðunum um umgjörð þessara markaða erlendis og jafnframt huga að því hvort stíga megi skref til aukins gagnsæis hérlendis.

Með hliðsjón af óumdeildum ávinningi gagnsæis er það áhyggjuefni hversu lítið gagnsæi er í kringum afgreiðslu beiðna um undanþágur frá gjaldeyrishöftum, einkum ef haft er í huga hversu mikilvægar ákvarðanir er um að ræða sem geta haft veruleg áhrif á umsækjendur og íslenskt efnahagslíf, eins og nýleg dæmi sanna.

Seðlabankinn telur gagnsæi takmörkunum háð vegna þagnarskyldu gagnvart umsækjendum en hefur reynt að koma til móts við kröfu um aukið gagnsæi með birtingu upplýsinga um almenna framkvæmd undanþágubeiðna á heimasíðu sinni. Umsækjendum er engu að síður nokkur vandi á höndum við mat á því hvort jafnræðis sé gætt í ákvörðunum bankans. Einfalt væri að draga úr tortryggni, t.d. með því að bjóða upp á fljótvirka kæruleið eins og Viðskiptaráð hefur lagt til. Einnig mætti hugsa sér að óháðum aðila á vegum stjórnvalda væri falið að fara kerfisbundið yfir ákvarðanir er varða stærri hagsmuni og aðrar ákvarðanir valdar af handahófi til að leggja mat á hvort gætt væri jafnræðis í afgreiðslu undanþágubeiðna. Á þessu sviði sem öðrum er gagnsæið krefjandi, en ávinningurinn ótvíræður.




Skoðun

Sjá meira


×