Fótbolti

Þjálfari hljóp inn á, var rekinn út af og reyndi að faðma dómara

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Svíinn Jan Jönsson er þrautreyndur þjálfari. Hann tók við kvennaliði Stabæk í ár.
Svíinn Jan Jönsson er þrautreyndur þjálfari. Hann tók við kvennaliði Stabæk í ár. getty/Magnus Andersson

Þjálfari Stabæk hagaði sér eins og kjáni í leik gegn Vålerenga í norsku úrvalsdeildinni. Hann reyndi meðal annars að faðma kvenkyns dómara leiksins.

Undir lok leiksins var Karina Sævik, leikmaður Vålerenga, á spretti við hliðarlínuna þegar Jan Jönsson, þjálfari Stabæk, hljóp inn á völlinn og stöðvaði hana.

Jönsson fékk rauða spjaldið fyrir þetta. Hann reyndi að afsaka sig og virtist svo í kjölfarið faðma fjórða dómara leiksins, Marit Skurdal. Hún gagnrýndi Jönsson eftir leik og sagði að svona lagað ætti ekki heima á fótboltavelli. Jönsson reyndi aftur á móti að bera blak af sér. 

„Ég vildi biðjast afsökunar,“ sagði þjálfarinn. „Það var komið fram í uppbótartíma og ég reyndi að ná boltanum til að taka innkast snögglega. Boltinn var klárlega farinn út af og ég fór meter inn á völlinn til að ná í hann. Ég vildi koma leiknum aftur af stað. Það var uppbótartími og Vålerenga sparkaði boltanum í burtu til að tefja.“

Dómari leiksins, Veronika Fjeldvær, sagði Jönsson hafa farið yfir strikið og það væri núna í höndum norska knattspyrnusambandsins hvort hann fengi frekari refsingu.

Vålerenga vann leikinn, 3-2. Landsliðskonan Sædís Rún Heiðarsdóttir sat allan tímann á varamannabekk Vålerenga sem er á toppi norsku úrvalsdeildarinnar með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×