Fótbolti

Ís­land hefði mátt taka 26 leik­menn á EM

Sindri Sverrisson skrifar
Úkraína getur sent 26 leikmenn á EM eftir að hafa slegið Ísland út í úrslitaleik umspilsins í mars.
Úkraína getur sent 26 leikmenn á EM eftir að hafa slegið Ísland út í úrslitaleik umspilsins í mars. Getty/Andrzej Iwanczuk

Þjóðirnar sem taka þátt á Evrópumóti karla í fótbolta í Þýskalandi í sumar mega taka með sér 26 leikmanna hópa, þrátt fyrir að kórónuveirufaraldurinn hafi ekki áhrif núna.

Mótaráð UEFA, knattspyrnusambands Evrópu, komst að þessari niðurstöðu og búist er við því að framkvæmdaráð sambandsins staðfesti þessa ákvörðun síðar í þessari viku.

Til stóð að breyta aftur til fyrra horfs og hafa 23 leikmanna hópa í sumar líkt og tíðkast hafði fram að síðasta EM, en þá var ákveðið að hafa 26 manna hópa vegna óvissu sem fylgdi kórónuveirufaraldrinum.

Stærri hópar voru einnig leyfðir á HM í Katar 2022 í ljósi þess að mótið fór fram á miðju keppnistímabili.

Nokkrir landsliðsþjálfarar gagnrýndu það að færri leikmenn færu á EM, og á nýlegum þjálfarafundi kom fram sú tillaga að 26 manna hópar yrðu leyfðir. Ronald Koeman, þjálfari Hollands, hafði til að mynda sagt fyrri ákvörðun UEFA „fjarstæðukennda“.

Alls taka 24 þjóðir þátt á EM líkt og tvö síðustu mót, en Ísland rétt missti af mótinu í ár eftir tap gegn Úkraínu í úrslitaleik umspils. Ef ekkert óvænt gerist, og ákvörðun um 26 manna hópa verður samþykkt, munu 624 leikmenn því fara á mótið.

EM hefst 14. júní og stendur yfir til 14. júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×