Fótbolti

Gæti krafist þess að El Clásico verði endur­tekinn vegna drauga­marks

Sindri Sverrisson skrifar
Lamine Yamal virtist hafa komið Barcelona yfir gegn Real Madrid í gær, í 2-1, en svo var ekki.
Lamine Yamal virtist hafa komið Barcelona yfir gegn Real Madrid í gær, í 2-1, en svo var ekki. Getty/Mateo Villalba

Joan Laporta, forseti Barcelona, er hundóánægður eftir 3-2 tapið gegn Real Madrid í El Clásico, stærsta leik tímabilsins í spænsku 1. deildinni í fótbolta í gær. Hann gæti krafist þess að leikurinn verði spilaður upp á nýtt.

Laporta er sérstaklega óánægður vegna umdeilds atviks í fyrri hálfleik leiksins, þegar staðan var 1-1, þegar mörgum virtist sem að Lamine Yamal hefði komið Barcelona yfir.

Dómarar leiksins mátu það sem svo að boltinn hefði ekki allur verið kominn yfir línuna, og dæmdu því ekki mark, en ekki er notast við marklínutækni í spænsku deildinni.

Laporta segir að ýmislegt megi setja út á varðandi dómgæsluna í gær en draugamark Yamal hafi staðið upp úr.

„Sem félag þá viljum við vera viss um hvað gerðist og ég get upplýst það að við munum krefja dómaranefnd spænska knattspyrnusambandsins um allt mynd- og hljóðefni í tengslum við atvikið,“ sagði Laporta á miðlum Barcelona.

„Ef það kemur svo í ljós eftir skoðun á þessum gögnum, að röng ákvörðun hafi verið tekin, þá munum við gera það sem þarf til að úr þessu verði bætt og útilokum að sjálfsögðu ekki hvers konar lögsókn. Ef að í ljós kemur að markið hefði átt að standa þá vinnum við út frá því og útilokum ekki kröfu um að leikurinn verði spilaður að nýju, rétt eins og gerst hefur í öðrum leik í Evrópu vegna VAR-villu,“ sagði Laporta og bætti við að fleiri atvik í leiknum bæri að skoða betur.

Síðustu dagar hafa verið Börsungum erfiðir en þeir féllu úr leik í Meistaradeild Evrópu í síðustu viku. Nú er sömuleiðis ljóst að liðið þarf að öllum líkindum að bíða horfa á eftir Spánarmeistaratitlinum til Real Madrid sem er komið með 11 stiga forskot á toppnum, þegar sex umferðir eru eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×