Íslenski boltinn

Skellur fyrir KR: Jóhannes fót­brotinn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jóhannes Kristinn í baráttunni í gær. Hann er frá næstu tólf vikurnar.
Jóhannes Kristinn í baráttunni í gær. Hann er frá næstu tólf vikurnar. Vísir/Anton Brink

Jóhannes Kristinn Bjarnason, leikmaður KR, er með brotið bein í fæti eftir leik liðsins við Fram í gær. Hann verður frá í tólf vikur.

Jóhannes kom illa út úr samskiptum við Fred Saraiva, leikmann Fram, sem steig á rist hans. Honum var skipt af velli og fór beinustu leið á sjúkrahús eftir 1-0 tap KR-inga fyrir Fram í Laugardal.

Eftir myndatöku er ljóst að hann er með brotið bein í fæti og þarf að fara í aðgerð vegna brotins. Hann verður frá í tólf vikur hið minnsta, og því ekki von á honum aftur fyrr en í lok júlí. Þetta kemur fram í tilkynningu frá KR.

Um er að ræða mikið högg fyrir KR-inga sem eru þunnskipaðir í bakvarðarstöðunum en Kennie Chopart yfirgaf liðið í vetur.

Vesturbæingar hafa verið óheppnir með meiðsli í upphafi móts. Um þrjár vikur eru í Aron Sigurðarson sem fór meiddur af velli í fyrsta leik við Fylki og í sama leik sleit Hrafn Tómasson krossband. Theódór Elmar Bjarnason fór þá hálfhaltrandi af velli í gær vegna eymsla í læri.

KR er með sex stig eftir fyrstu þrjá leiki sína í deildinni. Næst mætir liðið KÁ í bikarnum í miðri viku en eiga svo heimaleik við Breiðablik um næstu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×