Innlent

Göngu­mennirnir illa haldnir þegar komið var að þeim

Bjarki Sigurðsson skrifar
Otti Rafn Sigmarsson er í björgunarsveitinni Þorbirni.
Otti Rafn Sigmarsson er í björgunarsveitinni Þorbirni. Vísir/Vilhelm

Björgunarsveitir björguðu í gær þremur göngumönnum sem höfðu ætlað sér að labba að gosstöðvunum við Litla-Hrút en urðu örmagna á leið sinni. Einn þeirra sem fór í útkallið segir mennina hafa verið illa haldna þegar komið var að þeim. 

Mennirnir eru erlendir ferðamenn og höfðu gengið í sex tíma þegar þeir hringdu á hjálp. Otti Rafn Sigmarsson, einn þeirra sem leituðu mannanna í gær, segir að þeir hafi verið illa haldnir þegar þeir fundust.

„Það var mjög vont veður, bæði rok og rigning og mikil þoka. Svo eru miklar leysingar á svæðinu þannig það er mikil drulla og erfitt að komast um þarna á slóðanum. Þannig það var strax sent út öflugt viðbragð til þess að reyna að komast að þeim hratt og örugglega,“ segir Otti.

Erfitt veður

Það gekk vel að finna mennina og að komast að þeim. Þeir voru þokkalega vel búnir en veðrið í gær var alls ekki með þeim í liði.

„Þeir voru bara þokkalega vel búnir og það var örugglega tuttugu til 25 metrar á sekúndu og úrhellisrigning allan daginn. Þannig það eru fá föt sem halda svoleiðis slagveðri í heilan dag uppi á fjalli,“ segir Otti. 

Fáir reyna að sjá eldgosið

Gönguleiðin að Litla-Hrút er vinsæl leið og segir Otti það vera þónokkra umferð um svæðið. Færri freista þess að komast að eldgosinu sem er í gangi norðan við Grindavík.

„Það er svona eitt og eitt dæmi en það er mjög lítið. Við höfum fengið mjög góðan frið gagnvart því. Það hefur ekki verið vandamál hingað til,“ segir Otti. „Ég held að það sýni því allir skilning að það er erfið staða í Grindavík og úthald viðbragðsaðila er ekki endalaust. Krafturinn hefur verið í og við Grindavík að sinna íbúum og aðstæðum þar. Fólk skilur það að þar þarf krafturinn að vera en ekki uppi á fjalli að skoða gosstöðvarnar.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×