Fótbolti

Góður laugar­dagur fyrir Ísak, Þóri og Stefán

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson og félagar í Fortuna Düsseldorf gefa ekkert eftir í toppbaráttunni.
Ísak Bergmann Jóhannesson og félagar í Fortuna Düsseldorf gefa ekkert eftir í toppbaráttunni. Getty/ Uwe Anspach

Þrír íslenskir knattspyrnumenn fögnuðu allir sigri í leikjum liða þeirra í neðri deildunum í Þýskalandi og Svíþjóð í dag.

Ísak Bergmann Jóhannesson og félagar í Fortuna Düsseldorf unnu sinn sjötta deildarsigur í röð þegar liðið vann 1-0 sigur á Greuther Fürth. Hollendingurinn Vincent Vermeij skoraði eina markið á 69. mínútu. Düsseldorf situr í þriðja sætinu þremur stigum frá toppsætinu.

Mark var dæmt af Düsseldorf liðinu á 36. mínútu í fyrri hálfleik eftir að aðkomu myndbandsdómara. Yannik Engelhardt skoraði en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Það kom ekki að sök því sigurmarkið kom rúmu hálftíma síðar. Ísak spilaði allan leikinn á miðju Düsseldorf.

Þórir Jóhann Helgason og félagar í Eintracht Braunschweig gerðu góða ferð til Osnabrück í dag og náðu í mikilvæg stig í botnbaráttu þýsku b-deildarinnar.

Braunschweig vann 3-0 sigur og Þórir spilaði allan leikinn. Anton Donkor (8. mínúta), Rayan Philippe (40. mínúta) og Johan Gómez (60. mínúta) skoruðu mörkin. Braunschweig er í 13. sæti, þremur stigum fyrir ofan fallsæti.

Stefán Alexander Ljubicic og félagar í Skövde unnu 1-0 sigur á Trelleborg í sænsku b-deildinni. Með sigrinum komst liðið upp í fimmta sætið.

Þetta var þriðji byrjunarliðsleikur Stefáns í röð en hann á enn eftir að skora sitt fyrsta mark í sænsku b-deildinni.

Eina mark liðsins kom úr vítaspyrnu á 39. mínútu. Stefán lét finna fyrir sér og fékk gula spjaldið á 23. mínútu. Hann spilaði allan leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×